Starfshópur um aukið orkuöryggi á Vestfjörðum: gagnaöflun að ljúka

Í maí á síðasta ári tilkynnti þáverandi orkumálaráðherra Þórdís K. Gylfadóttir um skipan starfshóps sem gera á tillögur um hvernig náð skuli markmiðum Alþingis um aukið afhendingaröryggi á raforku á Vestfjörðum. Gert var ráð fyrir að niðurstöður starfshópsins liggi fyrir á þessu ári.

Formaður starfshópsins er Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri í Tálknafirði og varaþingmaður í Norðvesturkjördæmi. Bæjarins besta innti hana eftir því hvernig störfum starfshópsins miðaði.

Í svari hennar kemur fram að gagnaöflun er að ljúka og í næsta mánuði hefst vinna við að móta tillögur.

„Starfshópi um orkumál á Vestfjörðum er falið að kanna hvaða leiðir eru færar til að þoka málum á sviði orkumála á Vestfjörðum í rétta átt með samstilltu átaki, í samræmi við áherslur stjórnvalda úr orkustefnu, nýsköpunartefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Í erindisbréfi starfshópsins er ekki tímasett skil á tillögum, aftur á móti höfum við einsett okkur að vinna þetta eins fljótt og vel og mögulegt er. Starfinu miðar vel, hópurinn tók til starfa í september, við höfum fundað fjórum sinnum og er fimmti fundurinn á föstudag í næstu viku, þá höfum við fengið til fundar við okkur gesti sem hafa þekkingu á þessum málum. Í dag erum við á þeim stað að ljúka gagnaöflun ásamt því að fara yfir hvort okkur er að yfirsjást eitthvað sem skiptir máli að taka inn í vinnuna. Að því loknu höfum við ákveðið að fyrir miðjan febrúar munum við taka vinnudag þar sem við munum byrja að móta tillögur okkar. Því get ég ekkert tjáð mig um það á þessum tímapunkti hvaða tillögur eru til skoðunar. Við viljum skila af okkur sem fyrst, en mikilvægast er að mínu mati að skila vel rökstuddum tillögum.“

Í starfshópnum eru auk Eyrúnar:

Elías Jónatansson                                          Orkubú Vestfjarða

Iða Marsibil Jónsdóttir Vestfjarðastofu

Gnýr Guðmundsson                                      Landsnet

Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson                Orkustofnun

Erla Sigríður Gestsdóttir                              Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

DEILA