Smábátasjómenn vilja að Svandís auki veiðiheimildir í ýsu

Landssamband smábátaeigenda hefur sent Svandísi Svavarsdóttur sjávarúvegs- og landbúnaðarráðherra bréf þar sem óskað er eftir að 8.000 tonnum verði bætt við leyfilegan heildarafla í ýsu.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Landsambandsins en bréfið fer hér á eftir:

Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur á síðustu mánuðum fylgst náið með ýsuveiðum, m.t.t. útbreiðslu og ástandi hennar.  Í því skyni hefur LS leitað til skipstjóra og sjómanna á öllum stærðum og gerðum skipa.  Skemmst er frá því að segja að óþarft var að samræma sjónarmiða viðmælenda þar sem þau voru öll á einn veg:

•             ýsa um allan sjó

•             sjáum ekkert rof í stærðarsamsetningu

•             fiskurinn vel haldinn

Jafnframt ákvað LS að bíða niðurstaðna úr haustralli Hafrannsóknastofnunar og sjá hvort þar væri ekki samhljómur með skoðunum ofangreindra.“

Sú vissa sem nú liggur fyrir staðfestir þá skoðun LS að ákvörðun fv. sjávarútvegsráðherra að draga 8.000 tonn frá niðurstöðu aflareglu í ýsu hafi ekki verið rétt.  Ákvörðunina byggði ráðherra á að heimildin hefði verið viðbót við áður ákveðinn leyfilegan heildarafla og ætti því að koma til frádráttar á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar á næsta fiskveiðiári (2021/2022).  

Þegar grannt er skoðað er það óumdeilt að aflaregla í ýsu gaf niðurstöðuna 50.429 tonn.  Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar dags. 15. júní 2021 segir:

„Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðið leggja til, í samræmi við aflareglu íslenskra stjórnvalda, að afli fiskveiðiárið 2021/2022 verði ekki meiri en 50.429 tonn.“

Landssamband smábátaeigenda fer hér með fram á að leyfilegur heildarafli í ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári verði tafarlaust aukinn um 8.000 tonn, verði eins fram hefur komið 50.429 tonn.

Bent skal á að málefnið þolir enga bið.  Ákvörðunin hefur valdið miklum kostnaðarauka við þorskveiðar þar sem hann er ekki hægt að veiða á hefðbundnum miðum vegna mikillar ýsu sem þar er.  Hlutfall þorsks og ýsu í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er nú 19% en verður við breytinguna 23%.  Algengt er á hefðbundnum þorskmiðum þegar veitt er með línu eða botnvörpu að blöndunin við veiðarnar sé á bilinu 33-40%.

Þá segir í frétt LS að eins og venja er hefur ráðherra áframsent erindið til umsagnar hjá Hafrannsóknastofnun og mun í framhaldi af því taka ákvörðun.

DEILA