Orkumálin

Nú er það orðin staðreynd að upp er komin skortur á raforku í landinu, í fjölmiðlum var fyrir ekki svo löngu sagt að nóg rafmagn væri til það þyrfti ekki að virkja neitt.

Það er nokkuð til í þeim orðum þegar aðeins er skoðað uppsett afl þeirra stöðva sem fyrir eru í rekstri og samanlagt álag á þær. Þá er því sleppt annaðhvort viljandi, eða vegna vanþekkingar að ekki er nein fyrirhyggja í að keyra vélar á nánast fullu álagi í langan tíma. Fyrir því liggja þó nokkrar ástæður og eru þrjár einna helstar. Vélum sem þannig eru keyrðar er hættara við fyrirvaralausum bilunum og einnig nýta þær orkugjafann ekki eins vel og æskilegt væri, þá gildir einu hvort það er vatnstúrbína,  gufutúrbína eða dieselvél, allar vélar sem ég þekki til hafa nýtingarkúrfu sem er hagstæðust á álagi sem oftast liggur á milli 70% og 90%, ástimplaðs afls, þá fást flestar kWh fyrir hvern m3 af vatni, kg af jarðgufu og lítra af olíu . Þriðja helsta ástæðan er að alltaf verður að vera afl til reiðu falli stærsta vélin út vegna truflunar, annars hrinur kerfið sem kallað er.

Uppsett afl  hjá Landsvirkjun á landinu er ekki langt frá 3000 MW en álag á kerfinu er að nálgast 2400 MW ( vefur Landsnets ) sem sé hratt að nálgast 80% af uppsettu afli, svo koma léleg vatnsár sem draga framleiðsluna enn frekar niður.

Ekki bætir það úr að ekki er hægt að miðla afli milli landshluta nema mjög takmarkað vegna úr sér genginar Byggðalínu sem á sínum tíma var bylting í raforkumálum fyrir flesta landshluta. Það má að verulegu leiti skrifa á alltof flókið kerfi sem ferðast með hraða snigilsins, kerfinu kemur ekki við neinn tímarammi meðan rafmagn er á tölvubúnaðinum hjá þeim. Líka  eru þeir til sem segja, slökkva bara á stóriðjunni þá er óþarfi að virkja meir, með því losna í kringum 1500 MW, eru þessir aðilar tilbúnir að taka þeim aukakostnaði þegjandi?, ég held ekki.

Allir stærri sölusamningar á rafmagni til stórnotenda (stóriðjunar) hafa langan uppsagnarfrest og dýran sé brugðið útaf, mörgum finnst og þar á meðal mér að allt tal um að slökkva á álverunum og öðrum orkuferkum iðnaði sé ekki raunhæft á næstu árum vegna þess að þá flytst sú framleiðsla sem skaffar fjölmörgum atvinnu  annað, þar sem jafnvel eru notuð kjarnorka, en oftast kol, olía eða gas til rafmagnsframleiðslu, er það ekki nokkuð svipað og að keyra eigin skítahaug til nágrannans þegar horft er til loftslagsmála.

Miðað við það álag sem er á raforkukerfinu þessa dagana bráðvantar allavega um 400 MW í nýjum virkjunum inn á kerfið svo álag verði skikkanlegt á vélarnar og hægt sé að sinna fyrirbyggjandi viðhaldi og uppfærslu eldri stöðva, sem sumar eru að nálgast 80 árin, líka til að tryggja framleiðsluna eins og hægt er. Einnig þarf að fara með sem stærstan hluta af þessum nýju aflstöðvum út fyrir eldvirka beltið á suðurlandi og víðar. Okkar færustu jarðvísindamenn fullyrtu í sjónvarpsfréttum fyrir einhverjum misserum að ekki væri spurning um hvort heldur aðeins hvenær þau umbrot yrðu á Þjórsársvæðinu að þar stöðvaðist að einhverju eða öllu leiti orkuvinnsla í lengri eða skemmri tíma og jafnvel til frambúðar, hvort það verður á morgun, eða eftir mánuð, ár, áratugi eða hundruð ára veit enginn. Það sama á við um Reykjanesskagann og fleiri staði.

Vindorkustöðvar geta hjálpað, en grunnaflið sem yfirleitt er vatnsafls- eða jarðgufustöð verður að vera fyrir hendi því fyrir kemur að það geri logn, nema þá að keyra stórar olíuknúnar stöðvar þegar lygnir. ( Það gera Færeyingar því þar eru ekki stór vatnsföll ).

Aflið í sjávarföllunum er mikið, lítið hefur heyrst um athuganir á þeim annað en í Gilsfirði er einhver skoðun í gangi. Kannski það verði endirinn náist ekki samkomulag um að virkja fallvötnin, verði að setja hér upp kjarnorkuknúið orkuver, svo hægt sé að klára margumtöluð orkuskipti.       Þau menga ekki andrúmsloftið eins og brennsla á kolum og olíu, eigi að síður ættu svoleiðis orkuver alls ekki að höfða til okkar þar sem mikið er til af vatni sem bíður þess að gera gagn.

Allar virkjanir og önnur mannana verk skilja eftir sig ummerki til frambúðar, þann fórnarkostnað verður að meta af kostgæfni, án allra öfgasjónarmiða, þar sem kostir meiri og öruggari orku í landshlutanum eru metnir á móti óafturkræfum breytingum. Virkjunaraðilar gera sitt besta til að þau áhrif séu sem allra minnst, og kosta miklu til að svo sé þegar framkvæmdum líkur. Við eigum að nýta okkur alla kosti okkar fagra lands, okkur og afkomendum okkar til hagsbóta, líka ber okkur rík skylda til að ganga vel um landið okkar, og spilla ekki að óþörfu.                           

Oftast eru þessi virkjanana mannvirki þannig hönnuð að engu er líkara en þau hafi staðið þarna um aldir, sem sé snyrtileg og vel hirt mannvirki, sem falla vel að landslaginu. Nefna má að langflestir hálendisvegirnir eru tilkomnir vegna virkjana og framkvæmda þeim tengdar, þessir vegir eru og hafa verið nokkuð drjúg tekjulind hjá ferðaþjónustuaðilum. Ég er ekki viss um að þeir almennt væru til staðar, nema fyrir atbeina þeirra sem virkja vatnsföllin.

Virkjanakostir á sunnanverðum Vestfjörðum.

Í Vatnsdalsá á Barðaströnd er til áratugagömul frumhönnun á um 30 MW vatnsaflsvirkjun sem bæta myndi afhendingaröryggi á sunnanverðum Vestfjörðum svo um munar, og líka umtalsvert á norðanverðum fjörðunum. Tenging hennar inn á Mjólkárlínu 1 kæmi Mjólkármegin þ.e.norðan við  við um 90% af þeim truflunum sem komið hafa á Mjólkárlínu frá því hún var byggð. Það sem væri sjáanlegt að framkvæmdum loknum væri snyrtilegt aðkomuhús ofan við vatnið, Tengivirkið og stöðin sjálf væri neðanjarðar ( inni í fjallinu ). Inntaks og miðlunarlón kæmu á raskað land eftir að Mjólkárlína var lögð fyrir um 40 árum. Ef svo væri lögð 66 kV lína/strengur til Patreksfkarðar með aðveitustöð á t.d. Krossholtunum er kominn sterkur 66 kV hringur um suðursvæðið, þar með má segja að varaaflstöðin á Patreksfirði væri óþörf, sú varaaflstöð ein og sér getur notað 20.000 til 25.000 lítra af olíu á sólarhring eins og hún er í dag, þá er eftir að reikna með vélunum á Bíldudal og Kyndistöðinni  á Patreksfirði sem eru að nota samtals um 10.000 lítra á sólarhring í venjulegri vetrartíð. Þegar þetta er skrifað er útlit fyrir að keyra þurfi kyndistöðina á Patreksfirði á olíu einhverjar vikur eða mánuði nú í vetur vegna slæmrar vatnsstöðu.

Önnur virkjun á sunnanverðum Vestfjörðum var komin á teikniborðið í kringum 1970, þar beit pólitíkin í eigið skott og stoppaði verkið, sem var um það bil að hefjast. Sú virkjun var fyrirhuguð í Suðurfossá á Rauðasandi og átti að vera ef ég man rétt 2.4 MW, miðlunin átti að duga í um 6 vikur miðað við lágmarks innrennsli og 2.0 MW álag að mig minnir. Þarna var líka valkostur um nokkuð stærri vél sem gat verið svonefnd toppstöð. Þarna mætti virkja með 7 til 9.9 MW vél sem að öllu jöfnu keyrði á innrennslinu og héldi lóninu fullu, en í bilanatilvikum tæki hún við og keyrði á forðanum  sem grunnafl meðan viðgerð færi fram. Frá stöðinni væri upplagt að leggja rafstreng um Rauðasandinn svo þar fengist í leiðinni 3 fasa rafmagn. Slík virkjun kallar á 66 kV línu/ streng yfir á Sandodda í Patreksfirði. Þar mætti gera ráð fyrir aðveitustöð fyrir sveitina, og sæstreng yfir fjörðinn að Þúfneyri, þá er stutt í aðveitustöðina á Drengjaholtinu og núverandi 66 KV línu.

Svo er til úttekt verkfræðistofu um hagkvæma og frekar hagkvæma smávirkjanakosti 0.5 til 2.2 MW á nokkrum stöðum, þeir virkjanakostir kalla ekki á neinar sérstakar línulagnir en væru tengdar inn á núverandi 11 og 19 kV kerfi. Þessar litlu stöðvar gætu sem best verið ósamfasa, sem einfaldar til muna allan þeirra búnað.

Ósamfasa stöðvar geta ekki unnið nema straumur sé á kerfinu sem stýrir tíðni og spennu.

Ingimundur Andrésson

Vélfræðingur og rafvirki.

Og vann sem slíkur í um 40 ár hjá

Orkubúi Vestfjarða á Patreksfirði.

DEILA