Maskína: fylgi Samfylkingar hrynur

Í nýrri könnun Maskínu kemur fram að fylgi við Samfylkinguna á Vesturlandi og Vestfjörðum er aðeins 4,5%.

Könnunin fór fram á landsvísu dagana 6. til 19. janúar 2022 og voru 1.548 svarendur sem tóku afstöðu til flokks. Í greiningu á svörunum eftir búsetu eru Vesturland og Vestfirðir tekin saman í eitt svæði og Húnavatnssýslurnar og Skagafjörður teknar með Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sem Norðurland.

Nokkrar breytingar eru á fylgi flokkanna frá síðustu Alþingiskosningum. Fylgi Samfylkingarinnar hefur dregist verulega saman og mælist minna en 5% á Vesturlandi og Vestfjörðum og rétt um 8% á Norðurlandi. Píratar bæta verulega við og eru með um 13% í könnuninni.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem er liðlega 3/4 af Norðvesturkjördæmi er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 29,2%, Framsóknarflokkurinn 25,6%, Píratar 13,4%, Vinstri grænir 10,1% og Flokkur fólksins 9,8%.

Aðrir flokkar mælast með mun minna fylgi, Viðreisn 3,9%, Samfylkingin 4,5%,Miðflokkurinn 2,6% og Sósíalistaflokkurinn 0,9%.

Fylgi flokkanna á Norðurlandi er að nokkru leyti ólíkt því sem er á vestanverðu landinu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist aðeins með 14,6%, Samfylkingin 8,1% og Vinstri grænir 17,8%. Framsóknarflokkurinn mælist með 25,6% og er langstærstur, Píratar 12,9% og Flokkur fólksins 9,7%. Miðflokkurinn er með 5,2% og Viðreisn 3,2%. Sósíallistaflokkurinn mælist þar með 2,9%.

DEILA