Lilja Rafney: frv. um 48 daga strandveiðar

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður situr þesssa dagana á Alþingi. Hún hefur lagt fram frumvarp til laga til að tryggja 48 daga strandveiðar með auknum sveigjanleika í viðmiðunarafla til strandveiða. Leggur hún til að 5% af úthlutuðum aflaheimildum til uppsjávarskipa, umfram það sem nú er , verði varið til þess og að auki verði ráðherra heimilt að flytja til strandveiða allt að 30% af þorskveiðiheimildum almenna byggðakvótakerfisins, auk skel- og rækjuuppbóta fiskveiðiársins 2022/2023.

Frumvarpið var áður flutt á síðasta þingi og er endurflutt lítið breytt.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

„Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja strandveiðar í 48 veiðidaga frá og með árinu 2022 með auknum sveigjanleika í viðmiðunarafla til strandveiða. Er þessari aðgerð fyrst og fremst ætlað að efla sjávarbyggðir um land allt, auka framboð á fiski frá dagróðrabátum og vinna gegn atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru sem hefur bitnað á vinnandi fólki hringinn í kringum landið.“

„Breytingar þær sem hér eru lagðar til gera ráð fyrir sveigjanleika í viðmiðunarafla til strandveiða. Samkvæmt reglugerð nr. 920/2021 um veiðar í atvinnuskyni er viðmiðunarafli til strandveiða 8.500 tonn af þorski. Verði þörf á að hækka þá viðmiðun kæmi sá afli frá þorskveiðiheimildum almenna byggðakvótakerfisins sem og skel- og rækjuuppbótum fiskveiðiársins 2022/2023. Ekki skal skerða sérstaka byggðakvótann þar sem gildandi samningar kveða þegar á um ákveðið magn, en tekið verður tillit til þróunar strandveiða við endurskoðun samninga.“

DEILA