Ísafjarðarbær: Framsókn með fund á þriðjudaginn um framboð

Marzellíus Sveinbjörnsson.

Helga Dóra Kristjánsdóttir, formaður Framsóknarfélags Ísfirðinga segir að framsóknarmenn í bænum séu nú að stilla saman strengi í framboðsmálum. Boðað hefur verið til rafræns félagsfundar næsta þriðjudagskvöld til að ákveða fyrirkomulag framboðs.

„En undanfarið hefur uppstilling hefur verið valin og líklegt að sú leið verði niðurstaðan. En félagsfundur ákveður formið. Gott gengi í síðustu alþingiskosningum gefur byr í seglin og þéttir raðirnar. Flokkurinn á nú tvo fulltrúa í bæjarstjórn og gerum við okkur vonir um að bæta heldur í það fylgi með góðu baklandi.“ segir Helga Dóra.

Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi og oddviti B lista segir í svari við fyrirspun Bæjarins besta um framboð hans fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar að hann sé að bíða eftir næsta félagsfundi og muni eftir hann tilkynna hvað hann geri. 

Kristján Þór Kristjánsson, bæjarfulltrúi B lista segir að ákvörðun hans um framboð liggi ekki fyrir.

DEILA