Fiskeldi: aldrei meiri útflutningstekjur

Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða á nýliðnu ári var rúmir 36 milljarðar króna og hefur það aldrei áður verið meira. Í krónum talið er aukningin 23% frá árinu 2020.Útflutningsverðmæti eldisafurða er um 5% af heildarverðmæti alls vöruútflutnings í fyrra en rúm 12% af útflutningsverðmæti sjávarafurða.

Þetta kemu fram í fréttabréfi Sambands fyrirtækja í sjávarútvegi og er byggt á tölum frá Hagstofu Íslands.

Fram kemur að útflutningsverðmæti af eldislaxi var komið í rúma 25 milljarða króna á fyrstu 11 mánuðum ársins 2021. Það er um 50% aukning á föstu gengi frá sama tímabili árið 2020. Vóg eldislax rúmlega 76% af útflutningsverðmæti eldisafurða á fyrstu 11 mánuðum ársins, en það hefur aldrei mælst svo hátt.

Árið 2020 var 55% af öllum eldisfiski á landinu slátrað á Vestfjörðum. Tölur fyrir 2021 eru ekki handbærar.

Aukningin vegna laxeldisins

Eldislax skýtur loðnunni ref fyrir rass, en útflutningsverðmæti loðnuafurða á fyrstu 11 mánuðum ársins var rúmir 23 milljarðar króna. Eldislax skilaði næst mestu útflutningsverðmæti á tímabilinu af fisktegundum sem fluttar er frá Íslandi, þorskurinn er vitaskuld í fyrsta sæti. Af öðrum afurðum sem flokkast til eldisafurða má nefna frjóvguð hrogn, sem eru verðmæt hátækniframleiðsla. Útflutningsverðmæti þeirra nam um 2,3 milljörðum króna á fyrstu 11 mánuðum ársins og jókst um rúm 27% á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja, nam 4,5 milljörðum króna og dróst saman um rúm 12% á milli ára. Útflutningsverðmæti annarra eldisafurða nam um 1 milljarði króna og stóð í stað á milli ára.

DEILA