Elding mótmælir skerðingu kvóta til strandveiða

Vestfirðingar á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Stjórn smábátafélagsins Eldingar á norðanverðum Vestfjörðum hefur sent frá sér ályktun vegna skerðingu á þorskkvóta til strandveiða. Skerðingunni er harðlega mótmælt og minnir stjórnin stjórnvöld á, markmið og tilgang laga um stjórn fiskveiða, að vernda atvinnu og byggð í landinu

„Elding mótmælir harðlega ákvörðun sjávarútvegsráðherra að skerða  úthlutun aflaheimilda til strandveiðikerfisins árið 2022.

Krafan er að lögfest verði að lágmarki 48 dagar í sókn á ári.

Mikilvægt er að strandveiðikerfið sé ekki háð þeim brauðmolum sem kunna að falla af borði stórútgerðarinnar við skiptimarkað Fiskistofu.

Sagt er að vísindi efla alla dáð og farið hefur verið eftir vísindunum síðan árið 1983.
Niðurstaðan er sú, eins og raun ber vitni að aflaheimildir eru minni en í upphafi kvótakerfisins.

Óumdeilt er að útgerð smábáta hefur spornað gegn samþjöppun aflaheimilda og komið í veg fyrir að fjölbreyttur sjávarútvegur legðist af í dreifðum byggðum.

Strandveiðar yfir sumarið hafa tryggt útgerð hundruði smábáta  sem landað hafa afla á tuga útgerðarstaða um land allt, þannig hefur atvinna og mannlíf gengið í endurnýjun lífdaga.

Síðast en ekki síst hafa strandveiðar gefið nýjum aðilum tækifæri á að hefja útgerð.

Vert er að minna stjórnvöld á, markmið og tilgang laga um stjórn fiskveiða, að vernda atvinnu og byggð í landinu.“







                       

DEILA