Bolungavíkurhöfn: 325 m.kr. í framkvæmdir

Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í skýrslu Hafnasambands Íslands um fyrirhugaðar framkvæmdir í höfnum landsins 2021-2031 kemur fram að fyrirhugaðar nýframkvæmdir Bolungarvíkurhafnar árin 2021-2031 nema 325 m.kr. Þar af verður 185 m.kr. varið í landfyllingar, 100 m.kr. í rafbúnað vegna orkuskipta og 40 m.kr. í flotbryggjur. Vegagerðin hefur samþykkt fjárveitingu til Bolungarvíkurhafnar er nemur 162 m.kr. árin 2021-2024.

Hafnarsjóður Bolungavíkurhafnar er í eigu Bolungavíkurkaupstaðar. Fyrstu hafnarframkvæmdir sveitarfélagsins voru árið 1899 þegar komið var upp brimvörnum á svæðinu og var Bolungavíkurhöfn á meðal fyrstu hafna landsins sem fór í slíkar framkvæmdir. Síðan þá hefur verið farið í töluverðar framkvæmdir á svæðinu og hafa margar þeirra snúið að því að efla brimvarnir. Þær framkvæmdir hafa gert höfnina öruggari og í dag er höfnin meðalstór fiskihöfn. Bolungavíkurhöfn byggir sínar tekjur nær eingöngu á tekjum af aflagjaldi en þær numu 72% af heildartekjum hafnarinnar árið 2020 og tæplega 78% af heildartekjum árið 2019.

Áður hefur verið gerð grein fyrir áformum í öðrum höfnum á Vestfjörðum sbr. https://www.bb.is/2021/12/hafnir-a-vestfjordum-36-milljardar-kr-aformadar-i-nyframkvaemdir/

Ekki er gert ráð fyrir framkvæmdum samkvæmt skýrslunni á þessu árabili í Reykhólahöfn og Hólmavíkurhöfn.

DEILA