Virkjun í Vatnsfirði veitir meira öryggi en tvöföldun flutningslínu

Í nýrri skýrslu „Áreiðanleiki afhendingar á Vestfjörðum“ sem verkfræðistofan EFLA hefur unnið fyrir Landsnet,  kemur fram að Vatnsfjarðarvirkjun eykur afhendingaröryggi forgangsorku á Vestfjörðum meira en sú aðgerð að tvöfalda Vesturlínu 160 km leið, úr Hrútatungu í Mjólká.  Svo dæmi sé tekið þá minnkar ótiltæki rafmagns á Ísafirði um 90% með tilkomu virkjunarinnar í samanburði við 73% með tvöföldun flutningslínunnar.  Í báðum tilfellum er þá miðað við stöðuna núna að viðbættum þeim áformum sem Landsnet hefur í svæðisbundna flutningskerfinu á Vestfjörðum á næstu árum.  Það er vægt til orða tekið að tala um að kaflaskil gætu orðið í ahendingaröryggi raforku á Vestfjörðum með tilkomu virkjunar í Vatnsfirði ef tekið er mið af niðurstöðum skýrslunnar. Skýrsluna sem dagsett er 15. 12. 2021 má finna á vef Landsnets ásamt minnisblaði:


Rétt er að hafa í huga orðskýringu á orðinu „ótiltæki“ sem mikið er notað í skýrslunni, en það þýðir einfaldlega það sem í daglegu tali er kallað„ að það sé rafmagnslaust eða straumlaust“ á viðkomandi stað.

Hringtengingar á norður og suðursvæði Vestfjarða

Fróðlegt er að skoða áhrif þess að Landsnet tvöfaldi (hringtengi) svæðiskerfin fyrir sunnanverða Vestfirði og norðanverða Vestfirði um afhendingarstað Landsnets í Mjólká eins og fyrirtækið hefur þegar áform um.   Eins nauðsynlegar og góðar þær aðgerðir eru fyrir Vestfirðinga þá nægja þær engan veginn nema fleira komi til.  Í skýrslunni eru þessar tvöfaldanir nefndar Suður- og Norður-hringur.

Í stuttu máli þá minnkar ótiltækið á stærstu þéttbýlisstöðunum á Norðanverðum Vestfjörðum aðeins um 16% ef þessar tvær hringtengingar koma til einar og sér.  Engin bæting verður á ótiltæki í Mjólká.  Ef aðrar aðgerðir koma til viðbótar þessum hringtengingum gegnir hins vegar allt öðru máli.

Tvöföldun Vesturlínu
Ef ofangreindar hringtengingar koma til ásamt tvöföldun Vesturlínu þá minnkar ótiltækið um 73% á Ísafirði og í Bolungarvík, en 91% á Keldeyri við Tálknafjörð og 80% í Geiradal við mynni Gilsfjarðar. Ljóst er að tvöföldun Vesturlínu er flókið verkefni sem reynir á samninga við hundruð landeigenda sem þurfa að gefa samþykki sitt fyrir framkvæmdinni.  Ekkert er því í hendi varðandi hugsanlegan hraða framkvæmda. 

Virkjun í Vatnsfirði
Það sem vekur hvað mesta athygli í skýrslunni er að ef virkjun í Vatnsfirði kæmi til ásamt Suður- og Norðurhring þá minnkar ótiltæki á Ísafirði um 90%, en á Keldeyri minnkar það um 88%.  Í Mjólká mundi ótiltækið minnka um 98%, en í Geiradal um 46%.  Þetta sést vel á mynd 10 úr skýrslunni sem hér fylgir.

Virkjanir inn á tengipunkt í Ísafjarðardjúpi
Virkjun í Ísafjarðardjúpi eða hugsanlega Hvalárvirkjun, sem kæmu inn á nýjan tengipunkt fyrir botni Ísafjarðardjúps gæfu heldur lakari niðurstöðu fyrir norðan- og sunnanverða Vestfirði en tvöföldun Vesturlínu, en úr því má bæta með tvöföldun Mjólkárlínu úr Kollafirði í Mjólká og auka öryggið í hið sama og með virkjun í Vatnsfirði.  Sambærileg styrking Mjólkárlínu myndi að sjálfsögðu einnig auka flutningsöryggið frá Vatnsfjarðarvirkjun til Geiradals þótt það sé ekki tekið sérstaklega fyrir í skýrslunni.  Hið sama gildir ef bæði Vatnsfjarðarvirkjun og virkjun í Djúpi yrðu að veruleika.

Ályktanir dregnar af skýrslunni
Þær ályktanir sem draga má af skýrslunni eru m.a. eftirfarandi:

  1. Virkjun í Vatnsfirði kallar á minnstu mögulega fjárfestingu í flutningskerfinu og veitir hún sem einstök aðgerð mesta öryggið fyrir flesta notendur á Vestfjörðum vegna nálægðar við Suður- og Norðurhring flutningskerfisins.  Ótiltæki rafmagns á Ísafirði minnkaði þá um 90%, en 88% á Keldeyri við Tálknafjörð og 46% í Geiradal við mynni Gilsfjarðar.  Tenging virkjunarinnar við tengivirkið í Mjólká getur líka nýst síðar sem fyrsti áfangi í mögulegri tvöföldun Mjólkárlínu.
  2. Styrking svæðisbunda kerfisins (S-hringur og N-hringur) er í raun forsenda góðs afhendingaröryggis enda gera núverandi áform Landsnets ráð fyrir þeim báðum.  S-hringurinn er á þriggja ára framkvæmdaáætlun, en N-hringurinn á 10 ára áætlun.  Skýrslan sýnir mikilvægi hringtenginga á suður- og norðursvæði Vestfjarða, en ekki síður hversu mikilvægt það er að fá nýja raforkuvinnslu inn á þær hringtengingar til að þær geri fullt gagn varðandi afhendingaröryggi.
  3. Virkjanir í Ísafjarðardjúpi eða Hvalárvirkjun sem einnig getur tengst tengipunktinum þar, myndu styrkja raforkukerfið á Vestfjörðum mjög mikið, en þær kalla á talsvert lengri flutningslínur en virkjun í Vatnsfirði.  Ótiltæki rafmagns á Ísafirði minnkar þá um 68%, en 73% á Keldeyri við Tálknafjörð og um  87% í Geiradal.
  4. Samsettur valkostur virkjana tengdum tengipunkti í Ísafjarðardjúpi og tvöföldunar Mjólkárlínu eykur orkuöryggið á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum jafn mikið og virkjun í Vatnsfirði, þ.e. um 90% á Ísafirði og 88% á Keldeyri, en í Geiradal um 87%. 
    Virkjun í Vatnsfirði ásamt virkjunum í Ísafjarðardjúpi væru dæmi um samsettan valkost sem gæfi að líkindum svipaða niðurstöðu, en valkosturinn er ekki skoðaður sérstaklega í skýrslunni.

Orkuskiptin og virkjanir utan gosbelta
Orkuskiptin eru hafin á Íslandi.  Helmingur orkunnar sem  í dag er notuð á Vestfjörðum er fluttur inn á Vestfirði frá virkjunum í meira en 250 km fjarlægð frá flestum notendum um byggðalínuhringinn, en orkan er flutt þaðan inn á Vestfirði um Vestfjarðalínu.  Tvöföldun Vestfjarðalínu, ein og sér, nægir ekki ef flöskuhálsinn liggur í sjálfum byggðalínuhringnum, sem er einmitt raunin í dag.

Orkuframboð á Vestfjörðum vegna núverandi notkunar og vegna orkuskipta má hæglega leysa með orkuframleiðslu innan Vestfjarða.  Virkjanir sem byggðar yrðu á Vestfjörðum væru utan gosbeltanna og jarðskjálftasvæða, ólíkt helstu virkjunum sem byggðar hafa verið á Íslandi undanfarna áratugi.  Sú staðreynd, ein og sér, mælir með uppbyggingu á orkuframleiðslu innan Vestfjarða, bæði fyrir Vestfirðinga og aðra landsmenn.

Vestfirðir verði sjálfbærir í orkuöflun
Það er mat Orkubús Vestfjarða að virkjun í Vatnsfirði sé bæði raunhæfur valkostur og sá besti hvað varðar möguleika á að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum  sem fyrst.  Áhrifin yrðu auk þess mun minni brennsla olíu vegna varaafls og samsvarandi minna kolefnisspor.  Það einfaldar framkvæmdina við virkjun að einungis þarf að semja við einn landeiganda vegna vatnsréttinda sem tengjast Vatnsfjarðarvirkjun og vegna tengingar hennar við flutningskerfið, en það er íslenska ríkið.

Með tilkomu virkjunar í Vatnsfirði yrði stigið mjög stórt skref í þá átt að Vestfirðir verði sjálfum sér nógir um raforku.

Ísafirði 27. desember 2021,
Elías Jónatansson,
Orkubússtjóri

DEILA