Vesturbyggð gerir athugasemd við breytta verðskrá Póstsins

Bæjarráð Vesturbyggðar gerir alvarlegar athugasemdir við breytta verðskrá Póstsins sem tók gildi 1. nóvember 2021 í kjölfar breytinga á lögum um póstþjónustu í júní 2021.

Í bókun bæjarráðsins segir:

„Með breytingunni er ekki lengur kveðið á um niðurgreiðslu ríkissjóðs af hluta þess kostnaðar sem fellur til við að koma pósti til hinna dreifðari byggða á landsbyggðinni. Breytt verðskrá Póstsins mun hafa verulega neikvæð áhrif á íbúa í Vesturbyggð með mikilli hækkun kostnaðar vegna póstsendinga.“

Fyrr á árinu breytti Alþingi lögum um gjaldskrá Póstsins og afnam lagaskyldu um að bjóða viðskiptavinum sama verð um allt land fyrir alþjónustu. Af því leiddi að verð fyrir þjónustuna hækkaði á landsbyggðinni þar sem ríkið dró úr niðurgreiðslu sinni. Fram að því hafði í liðlega hálft annað ár verið skylt að bjóða þjónustuna á landsbyggðinni á sama verði og á höfuðborgarsvæðinu þótt það væri undir kostnaði.

Undan þessu var kvartað m.a. af hálfu samtaka atvinnulífsins sem taldi að niðurgreiðsla ríkisins kæmi í veg fyrir samkeppni á þessum markaði á landsbyggðinni.

Póstinum er áfram heimilt að viðhafa sömu verðskrá um allt land á bréfum undir 51 grammi.

DEILA