Vegvarpið

Vegvarpið, hlaðvarpsþættir í sjónvarpsþáttaformi, er nýjung í upplýsingaflóru Vegagerðarinnar. Þáttunum er streymt á netinu og fjalla þeir um fjölbreytt málefni sem varða Vegagerðina.

Hlaðvörp njóta mikilla vinsælda, en það eru útvarps- eða sjónvarsþáttaraðir sem gefnar eru út á netinu. Formið þykir skemmtilegt enda er lengd hvers þáttar ekki meitluð í stein og því hægt að kafa eins djúpt í málin og þurfa þykir.

Nú hefur Vegagerðin hafið gerð hlaðvarpsþátta í myndbandsformi sem bera heitið Vegvarpið. Fyrsti þáttur fór í loftið 4. nóvember. Þar ræddi G. Pétur Matthíasson forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar við Birki Hrafn Jóakimsson forstöðumann stoðdeildar og  Jón Magnúson deildarstjóra á framkvæmdadeild um malbik og klæðingu, hver munurinn sé og hvernig viðhald vega er ákveðið.

Viðtökurnar við þættinum voru góðar en um 1000 manns hafa horft á myndbandið.

Í næstu þáttum er ætlunin að koma víða við. Til að mynda á að fjalla um vetrarþjónustu sem nú er víðast hvar hafin og almenningssamgöngur en ekki allir vita að Vegagerðin heldur utan um rekstur almenningssamgangna á landsbyggðinni, almenningsvagna, flug og ferjur.

Hægt er að nálgast upptökur af Vegvarpinu á Youtuberás Vegagerðarinnar.

DEILA