ÚUA : Hábrún lagði Skipulagsstofnun

Eldiskví Hábrúnar ehf.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál, ÚUA, úrskurðaði á þriðjudaginn að Skipulagsstofnun skyldi án frekari tafa taka til afgreiðslu fyrirliggjandi tillögu Hábrúnar ehf að matsáætlun vegna fyrirhugaðs eldis á 11.500 tonnum af regnbogasilungi í sjókvíum kæranda í Ísafjarðardjúpi.

Skipulagsstofnun hafði hafnað því 4. júní 2021 að taka til meðferðar tillögu að matsáætlun, sem og frummatsskýrslu, vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs eldis á 11.500 tonnum af regnbogasilungi. Hábrún kærði þá ákvörðun til ÚUA.

Tildrög málsins eru þau að þann 20. ágúst 2018 sendi Hábrún ehf Skipulagsstofnun fjórar tillögur að matsáætlun vegna fyrirhugaðs eldis á samtals 11.500 tonnum af regnbogasilungi á fjórum eldissvæðum í Ísafjarðardjúpi. Í október sama ár var skilað inn nýrri tillögu að matsáætlun , í samræmi við ábendinu Skipulagsstofnunar, þar sem litið var á eldið sem eina framkvæmd.

Eftir athugasemdir Skipulagsstofnunar var skilað inn tillögu að matsáætlun í maí 2019. Mánuði síðar var þess óskað að tillagan yrði tekin til meðferðar þannig að samþykkja mætti hana svo hægt væri að skila inn frummatsskýrslu vegna fyrirhugaðs eldis.  Í svarpósti Skipulagsstofnunar 2. júlí s.á. kom fram að stofnunin hefði ekki getað fjallað um erindi kæranda frá 24. maí 2019 vegna verkefnaálags og manneklu.

Þetta skipti máli þar sem Alþingi samþykkti ný lög um fiskeldi í júní 2019 og verulegu máli skipti fyrir umsækjanda hvort umsókn hans yrði afgreidd samkvæmt eldri lögum eða þeim nýju. Ef hið seinna yrði ofan á væri svo gott út um vonir Hábrúnar um leyfi fyrir fiskeldi í Djúpinu.

Kærandi sendi Skipulagsstofnun frummatsskýrslu 30. ágúst 2019 og vildi að hún fengi afgreisðu samkvæmt eldri lagaákvæðum. Skipulagsstofnun svaraði í september og hafnaði því að taka matsáætlunina til afgreiðslu þannig að umsækjandi yrði að hefja umsóknarferlið að nýju samkvæmt nýju lagaákvæðunum.

Hábrún rökstuddi kæru sína með því að Skipulagsstofnun hafi ekki virt skýr lagaákvæði um tímafresti. Hefði þeim verið fylgt hefði mátsáætlunin verið afgreidd fyrir setningu nýju laganna. Skipulagsstofnun bar því að mikill málafjöldi og óraunhæfir tímafrestir hefðu valdið því að ekki tókst afgreiða tillögu Hábrún í tæka tíð. Það leiði ekki til þess að Skipulagsstofnun hafi samþykkt matstillöguna. Án samþykktrar matstillögu geti Skipulagsstofnun ekki tekið frummatsskýrslu til meðferðar.

Tafir Skipulagsstofnunar eiga sér ekki stoð í lögum

Í úrskurði ÚUA segir að lögmætisreglan sé undirstaða opinberrar stjórnsýslu og felur hún í sér að ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og megi ekki fara gegn þeim. Var þannig ekki heimild fyrir Skipulagsstofnun að lögum til að afgreiða mál með þeim hætti að hafna því að taka þau til meðferðar, heldur bar stofnuninni, m.a. að gættum ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn máls o.fl., að taka afstöðu til þess hvort synja eða fallast ætti á matsáætlun kæranda með eða án athugasemda.

Davíð Kjartansson.

„Af þessu verður kærandi ekki látinn bera halla og er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu tillögu hans að matsáætlun. Þær tafir eiga sér ekki stoð í lögum og eru því ekki afsakanlegar. Verður því lagt fyrir Skipulagsstofnun að taka til formlegrar afgreiðslu án frekari tafa tillögu kæranda að matsáætlun.“

Davíð Kjartansson, framkvæmdastjóri Hábrúnar ehf sagðist í samtali við Bæjarins besta vera mjög ánægður með úrskurð ÚUA, sem hefði mikla þýðingu fyrir Hábrún ehf og fyrir hann og orðaði Davíð það svo að „loksins fékk ég æruna mína til baka.“

DEILA