Svandís sjávarútvegsráðherra heimsótti Hafrannsóknastofnun og Matís

Ráðherra og Oddur Már forstjóri Matís ásamt starfsfólki.

Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimsótti Hafrannsóknastofnun og Matís í vikunni, en bæði heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  


Í heimsókn sinni í nýlegt húsnæði Hafró í Hafnarfirði hitti ráðherra starfsfólk og Þorstein Sigurðsson, forstjóra stofnunarinnar. Þar fékk hún fræðslu um starfsemina, fundaði með framkvæmdastjórn og fór yfir áskoranir stofnunarinnar til næstu ára. Ráðherra fór einnig um borð í rannsóknarskipið Árna Friðriksson og fékk stutta kynningu, en nú er unnið að því að ljúka samningum um nýtt hafrannsóknarskip svo hægt sé að hefja smíði þess. 


Í heimsókn sinni í Matís fékk ráðherra einnig kynningu á starfseminni og þeirri aðstöðu sem Matís býður upp á. Svandís hitti starfsfólk og Odd Má Gunnarsson, forstjóra og fræddist um áskoranir stofnunarinnar, en hlutverk Matís er að styðja við verðmætasköpun, lýðheilsu og matvælaöryggi. Fyrir vikið var mikið rætt um sóknarfærin í landbúnaði, sjávarútvegi og umhverfismálum. 

Ráðherra mun halda áfram að heimsækja stofnanir í vikunni og mun meðal annars hitta fulltrúa Fiskistofu, Landgræðslunnar og heimsækja Matvælastofnun á Selfossi á föstudag. 

Svandís, Þorsteinn og Ólafur Pétur Sigurðsson í Árna Friðrikssyni, rannsóknarskipi Hafró.
DEILA