Raggagarður hlýtur umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Í gær var tilkynnt hver hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2021. Ferðamálastofa hefur ákveðið að verðlaunin komi að þessu sinni í hlut Vilborgar Arnarsdóttur fyrir uppbyggingu Raggagarðs á Súðavík. 

Vilborg Arnarsdóttir (Bogga í Súðavík) fór af stað með uppbyggingu Raggagarðs til minningar um son sinn Ragnar Frey Vestfjörð, sem að lést í bílslysi árið 2001, þá aðeins 17 ára gamall. Markmiðið með garðinum er að hlúa að fjölskyldum, efla útiveru og hreyfingu og stuðla um leið að ánægjulegri samveru foreldra og barna, einnig að styrkja uppbyggingu Súðavíkur sem ferðamannabæjar og efla afþreyingu fyrir ferðamenn á Vestfjörðum. Súðavíkurhreppur lagði til lóðina en heimamenn, sumarbúar, gestir og fjöldi velunnara garðsins á öllum aldri ásamt styrktaraðilum hafa látið þennan draum rætast.

Það mun enn bætast við af tækjum og aðstöðu í garðinum næsta sumar.  Raggagarður ætlar að setja upp 9 körfu frisbívöll FOLF fyrir ofan Raggagarð í samstarfi með Ungmennafélaginu Geisla í Súðavík.

Aukið öryggi og bætt aðgengi

Raggagarður hefur tvívegis hlotið styrki frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Garðurinn hlaut styrk árið 2019. Verkefnið fólst í að bæta öryggi ferðamanna, m.a. setja upplýsingaskilti, bæta við öryggismottum fyrir leiktæki, laga girðingar og smíða öruggari aðstöðu fyrir grillin á Boggutúni.

Síðari styrkurinn var hluti af sérstakri aukaúthlutun ráðherra árið 2021 þar sem lögð var áhersla á bætt aðgengi á ferðamannastöðum fyrir gesti með skerta hreyfigetu. Verkefnið snerist um að setja mottur á göngustíga á svæðinu, setja upp handföng við salerni og smíði á nýjum og lengri rampi.

Bæði framkvæmdaverkefnin voru kláruð með miklum sóma og ríma vel við áherslur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er varða öryggi, bætt aðgengi og samfélagslega ábyrgð.

Umhverfisverðlaun veitt frá árinu 1995

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem koma að ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri skipulagningu og framkvæmd.

Þau hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því í 27. sinn sem þau eru afhent. Verðlaunin eru nú í sjötta sinn veitt fyrir verkefni sem hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða og voru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi umhverfistefnu Ferðamálstofu og áherslur Framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulags.

DEILA