Íslenska stuttmyndin Rán hlaut verðlaun á alþjóðlegri kvikmyndahátíð

Íslenska stuttmyndin Rán hlaut verðlaun fyrir bestu leikkonuna á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Asti á Ítalíu.

Það var mynd Palestínumanna, Dead Sea sem hlaut fyrstu verðlaun fyrir bestu stuttmyndina, en Rán hafnaði í öðru sæti í þeim flokki.

Rán var tekin upp á Ísafirði og í Súðavík á vordögum 2020 skömmu eftir að 5 manna samkomubanni var aflétt á svæðinu. Hún hefur flakkað á nokkrar kvikmyndahátíðir og fengið nokkur verðlaun.  „Við ákváðum að þetta yrði síðasta hátíðin sem hún færi á og fannst við verða að fylgja henni þangað“ sagði Steingrímur Rúnar Guðmundsson, en auk hans fóru Fjölnir Baldursson og Jónína Margrét Bergmann á hátíðina í Asti.

„Ítalir tóku vel á móti okkur og fékk myndin góðar viðtökur gesta og heimamanna. Við kynntumst fólki frá mörgum mismunandi stöðum, svo sem Palestínu, Austurríki, Kúbu, Þýskalandi og auðvitað Ítalíu. 
Einn af þekktari gestum hátíðarinnar var leikarinn Richard Sammel, sem fannst greinilega gaman að hitta okkur Íslendingana og hanga með okkur. Hann ræddi mikið um hvernig við gætum haldið áfram með þessa stuttmynd og gert meira úr henni sem mynd í fullri lengd. Richard er líklega þekktastur fyrir að leika í La vita e bella (Life is Beautiful), Inglourious Basterds. Ásamt því að leika með íslenska leikaranum Tómasi  Lemarquis í myndinni 3 Days to Kill.“

Jónína Margrét Bergmann fékk verðlaun sem besta leikkonan.
DEILA