Ísafjörður: ágreiningur um landfyllingu við Fjarðarstræti

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti fyrir helgi fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana og fyrirtækja, fyrir árið 2022, ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2023-2025 og fjárfestingaráætlun 2022-2026.

Fram kom ágreiningur milli meirihluta og minnihluta um landfyllingu við Norðurbakka. Meirhlutinn samþykkti verkefnið en minnihlutinn lagðist gegn landfyllingunni og vildi þess í stað skoða landfyllingu við það sem kallast Torfnesrif.

Arna Lára Jónsdóttir, Nanný Arna Guðmundsdóttir og Þórir Guðmundsson, bæjarfulltrúar Í-lista, lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Undirritaðir bæjarfulltrúar Í-listans vilja bóka sína afstöðu varðandi hugmyndir um landfyllingu sem nefnd hefur verið Norðurbakki og er undir liðnum lóðir og lendur í fjárfestingaáætlun Ísafjarðarbæjar 2022. Fjaran við Fjarðarstræti er útivistarsvæði og aðdráttarafl fyrir bæjarbúa og aðra sem okkur heimsækja. Fjaran er mikið nýtt af grunnskólabörnum sem hafa þegar skilað inn undirskriftarlista þar sem þau mótmæla fyrirhugaðri framkvæmd, einnig er hún nýtt í útikennslu bæði í grunn- og leikskólum Ísafjarðar.

Í stað þess að fara í landfyllingu við Norðurbakka er skynsamlegra að skoða landfyllingu við það sem kallast Torfnesrif. Slík framkvæmd brýtur ölduna sem gengur í suðvestanáttum upp á Pollgötuna með tilheyrandi sjógangi. Hægt væri að sækja um styrk til hafnabótasjóðs og Vegagerðarinnar vegna þeirrar framkvæmdar. Mikill akkur er í því að gera Pollinn aðgengilegri, því eins og staðan er núna er erfitt að komast þar að nema klifra upp á grjótvörnina til að fá að njóta þeirrar sýnar sem Pollurinn býður upp á. Það má vel hugsa sér að nota nýja landfyllingu við Torfnesrif til að gera Pollinn skemmtilegri og aðgengilegri en nú er.“

Bæjarfulltrúar D-lista Sjálfstæðisflokks og B-lista Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Landfylling við Torfnes er góð hugmynd sem vert er að skoða. Hinsvegar er óraunhæft að það verkefni verði að veruleika á næsta ári enda Aðalskipulagsferlið ekki hafið. Tillaga um að skoða aðra kosti þarf hins vegar að koma fram og fá umræðu sem verður betur rædd á öðrum stað en undir liðnum fjárhagsáætlun. Meirihlutinn telur sjálfsagt að skoða landfyllingar til framtíðar. Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar er í endurskoðun og þessi hugmynd verður skoðuð þar.“

DEILA