Ísafjarðarbær: 22 verkefni á uppbyggingaráætlun íþróttamannvirkja

Fjölnota íþróttahús er nú á 5 ára áætlun og fjárhagsleg aðkoma einkaaila er talin æskileg.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti uppbyggingaráætlun íþróttamannavirkja til næstu 5 ára á fundi sínum í gær.

Áætlunin er unnin út frá þarfagreiningu aðildarfélaga HSV. Þar er að finna 11 uppbyggingarverkefni í þriggja ára áætlun og 11 verkefni í fimm ára áætlun. Jafnframt eru þar hugmyndir fulltrúa íþrótta- og tómstundanefndar, starfsfólks Ísafjarðarbæjar og HSV og svo viðhaldslisti sem þarf að fara í á næstu árum.
Þegar uppbyggingaráætlunin hefur verið samþykkt geta aðildarfélög HSV sótt um uppbyggingarsamninga til að vinna þau verkefni sem finna má í uppbyggingaráætlun. Þurfa þá aðildarfélögin að gefa upp kostnaðarmat á verkefninu sem sótt er um að gera sem og tímaramma framkvæmdarinnar.

Engar kostnaðartölur eru í áætluninni.

Fjölnota íþróttahús á Torfnesi er nú á 5 ára áætlun. Íþrótta- og tómstundanefnd segir að aðkoma einkaaðila sé æskileg þar sem bærinn geti ekki einn staðið undir fjárfestingunni:

„Með nýju fjölnota íþróttahúsi á Torfnesi er hægt að æfa inni fótbolta yfir veturinn og einnig geta önnur íþróttafélög nýtt sér húsið sem myndi rýmka um tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi sem er fullnýtt. Nefndin sér ekki fyrir sér
að bærinn geti einn staðið undir þessari fjárfestingu og því væri aðkoma einkaaðila æskileg.“

Meðal annarra verkefna sem eru á áætluninni eru gervigras á aðalvöllinn og klára stúku við Olísvöllinn, útisvæði hestamanna í Engidal með byggingu hringvallar, hjólabraut í Skutulsfirði, lýsing og girðingar á skíðasvæðum, aðstaða á Torfnesi fyrir félagsmenn Skotís og færa skotsvæði yfir í Dagverðardal, útikörfuboltavöllur á Torfnesi, stækkun golfskála og aðstaða fyrir íróttafélagið Ívar.

DEILA