Heimsmarkmiðasjóðurinn styður verkefni Kerecis í Egyptalandi

Guðmundur Fertram Sigurjónsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

Í fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu er vakin athygli á því að Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu hefur styrkt samstarf lækningafyrirtækisins Kerecis og egypska Ahl Masr-sjúkrahússins um að nota íslenskt sáraroð við meðhöndlun alvarlegra brunasára.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis hafa undirritað samning um 30 milljóna króna stuðning ráðuneytisins úr Heimsmarkmiðasjóðnum við samfélagsverkefni Kerecis í Egyptalandi.

„Alvarleg brunaslys sem tengjast notkun á steinolíu við eldamennsku eru sorglega algeng í Egyptalandi og einn af hverjum þremur sem lenda á sjúkrahúsi vegna slíkra áverka deyr af sárum sínum,“ segir Guðmundur Fertram, stofnandi og framkvæmdastjóri Kerecis. „Við trúum því að okkur vörur geti bjargað mannslífum og aukið lífsgæði þeirra sem slasast með þessum hætti. Þess vegna ætlum við að kenna egypskum læknum að nota íslenskt sáraroð í brunameðferðum og erum þakklát fyrir stuðning ráðuneytisins. Hann gefur verkefninu aukinn slagkraft, auk þess að vera okkur mikil hvatning til góðra verka.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra, segir að framlag Kerecis skipti sköpum fyrir fátæka sjúklinga óháð kyni, aldri og efnahag en flestir brunasjúklingar í Egyptaland eru konur og börn á leikskólaaldri.. „Bætt brunameðferð með íslensku sáraroði leiðir til þess að þau snúi fyrr aftur til náms eða vinnu auk þess sem langtíma færniskerðing og útlitslýti minnkar, sem aftur leiðir til aukinnar atvinnuþátttöku og minni útskúfunar. Þetta framlag Kerecis er því afar mikilvægt og stuðlar beinlínis að auknu jafnrétti. Ég hvet íslensk fyrirtæki til að leggjast á árar með okkur við að stuðla að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með aðstoð Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífs um þróunarsamvinnu,“ sagði Þórdís Kolbrún við undirritun samningsins í gær.

Ahl Masr er góðgerðaspítali sem sérhæfir sig í meðhöndlun efnaminni sjúklinga, þeim að kostnaðarlausu. Kerecis veitir sérfræðingum Ahl Masr þjálfun og útvegar þeim lækningavörur.

DEILA