Hafnir á Vestfjörðum: 3,6 milljarðar kr. áformaðar í nýframkvæmdir

Tálknafjarðarhöfn um 1990.

Í nýrri skýrslu sem Hafnasamband Íslands hefur látið taka saman um framkvæmda- og viðhaldsþörf hjá íslenskum höfnum á komandi árum kemur fram að áformaðar eru 3,6 milljarðar króna í nýframkvæmdir til hafna í fjórum sveitarfélögum á Vestfjörðum á árunum 2021- 2031.

Stefnt er að nýframkvæmdum við hafnarmannvirki á landinu öllu upp á ríflega 67 ma.kr. fram til ársins 2031. Langstærsti hluti þessara áætluðu framkvæmda er vegna nýrra viðlegukanta eða um 27 ma.kr., um 15 ma.kr. eru áætlaðir  í fjárfestingar á viðbótar raftengibúnaði vegna orkuskipta og um 10 ma.kr. í landfyllingar fyrir ný hafnarsvæði.

Hafnir Ísafjarðarbæjar

Á fyrstu áratugum 20. aldar voru margar smáar hafnir í eigu einkaaðila byggðar við Ísafjörð. Árið 1922 setti hið opinbera Hafnalög fyrir Ísafjörð og árið 1923 fjárfesti bæjarfélagið í Hæstakaupstaðarbryggju og byggði hana upp. Árið 1927 fjárfesti bæjarfélagið í Neðstakaupstaðareign og með henni fylgdu eignir og bryggjur. Hafnarsjóður Ísafjarðarbæjar varð til árið 1996 með sameiningu sveitarfélaga og undir hann falla Ísafjarðarhöfn, Þingeyrarhöfn, Flateyrarhöfn og Suðureyrarhöfn. Sjóðurinn er að fullu í eigu Ísafjarðarbæjar.
Árið 2019 námu tekjur hafnasjóðsins af skemmtiferðaskipum rúmlega 45% af heildartekjum þess og hafa þær tekjur aukist á síðustu árum að undanskildu árinu 2020.

Töluverðar nýframkvæmdir eru í kortunum hjá Höfnum Ísafjarðarbæjar en fyrirhugaðar nýframkvæmdir nema 1.868 m.kr. árin 2021-2031. Þar af verður 820 m.kr. varið í rafbúnað vegna orkuskipta, 750 m.kr. í nýja viðlegukanta, 220 m.kr. í landfyllingar, 48 m.kr. í flotbryggjur og 30 m.kr. í hafnarbakka/uppland. Nýverið var gerð skýrsla um framtíðaráform
á hafnarsvæði sjóðsins. Þau áform fela í sér endurnýjun á trébryggjum, byggingu nýrra trébryggja og skiptingu hafnarsvæðisins eftir atvinnugreinum. Gert er ráð fyrir að framkvæma þetta í áföngum og er heildarkostnaður metinn um 100 milljónir. Samþykkt fjárveiting frá Vegagerðinni til Hafna Ísafjarðarbæjar árin 2021-2024 nemur 586 m.kr.

Hafnir Vesturbyggðar

Sveitarfélagið Vesturbyggð var stofnað árið 1994 með sameiningu Barðarstrandarhrepps, Rauðasandshrepps, Patrekshrepps og Bíldudalshrepps og varð þá til Hafnarsjóður Hafna Vesturbyggðar. Sjóðurinn er í eigu Vesturbyggðar og undir honum eru Bíldudalshöfn, Brjánslækjarhöfn, Patreksfjarðarhöfn og Örlygshöfn. Hafnir Vesturbyggðar byggja tekjur sínar að mestu á tekjum af aflagjöldum og námu þær meira en helmingi af heildartekjum hafnarsjóðsins árið 2020.
Fyrirhugaðar nýframkvæmdir hjá höfnum Vesturbyggðar árin 2021-2031 nema 1.124 m.kr. Þar af verður 564 m.kr. varið í nýja viðlegukanta, 40 m.kr. í flotbryggjur og 20 m.kr. í hafnarbakka/uppland. Þá liggja fyrir hugmyndir um framkvæmdir vegna rafbúnaðar.
Áætlaður kostnaður við slíkar framkvæmdir er um 500 m.kr. en endanleg ákvörðun um þá leið sem yrði farin hefur ekki verið tekin. Vegagerðin hefur samþykkt að veita Höfnum Vesturbyggðar fjárveitingu að upphæð 94 m.kr. árin 2021-2024.

Súðavíkurhöfn

Á fyrri hluta 20. aldar voru bryggjur úr timbri byggðar við Súðavík og voru þær í einkaeigu. Það var svo árið 1951 sem hreppurinn keypti Bryggju Gríms Jónssonar og lét lengja hana og bæta. Síðan þá hefur aðstaðan verið bætt með varnargörðum og fleiru. Hafnarsjóðurinn er að fullu í eigu Súðavíkurhrepps. Tekjur sjóðsins af aflagjaldi voru um 33.7% af heildartekjum hans árið 2020.
Súðavíkurhöfn gerir ráð fyrir nýframkvæmdum er nema 637 m.kr. Þar af verður 377 m.kr. varið í nýja viðlegukanta og 260 m.kr. í landfyllingar. Vegagerðin hefur samþykkt að veita Súðavíkurhöfn fjárveitingu er nemur 225 m.kr. árin 2021-2024.

Tálknafjarðarhöfn

Á árunum 1946-1949 var bátabryggja úr steinsteypu byggð við Tálknafjörð. Fyrir þann tíma var engin bryggja á staðnum og hið opinbera hafði lítil afskipti af hafnamálum á Tálknafirði á fyrstu áratugum 20. aldar. Í dag telst höfnin meðalstór fiskihöfn og er hafnarsjóðurinn í eigu Tálknafjarðarhrepps. Tekjur Tálknafjarðarhafnar eru að stærstum hluta byggðar á tekjum af aflagjöldum.
Vegagerðin hefur samþykkt að veita Tálknafjarðarhöfn fjárveitingu að upphæð 29 m.kr. árin 2021-2024.

DEILA