Friðun Dranga: Umhverfisráðherra krafinn svara

Kortið sem fylgir með bréfi Guðrúnar Önnu Gunnarsdóttur til Umhverfisráðherra.

Einn landeigenda að jörðunum Drangavík og Skjaldabjarnavíkur, Guðrún Anna Gunnarsdóttir, sem báðar liggja að Dröngum í Árneshreppi hefur ritað Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Umhverfisráðherra, bréf og vekur athygli á því að svo virðist sem friðun Dranga sem óbyggt víðerni nái til svæðis á öðrum jörðum sem ekki eru friðaðar og vill fá útskýringu á því hvað felist í lagaákvæðum sem segja að óbyggt víðerni skuli vera að jafnaði í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum.

Birtir hún kort af Dröngum og áhrifasvæði friðunarinnar máli sínu til stuðnings.

Guðrún segir í bréfi sínu að Drangar geti ekki fallið undir svæðið óbyggt víðerni nema með þeim afleiðingum að gengið sé á rétta nágranna Dranga. Sýnist henni að friðlýsingin hafi áhrif á Drangavík að öllu leyti og að mestu leyti á Skjaldabjarnavík. Bendir hún á að Drangar séu aðeins 8 km breið jörð og 12 km frá fjöru til fjalls.

Ekki liggur fyrir hvort áhrifasvæði friðunarinnar nái að fyrirhuguðu virkjunarsvæði í Ófeigsfjarðarlandi en það er ekki útilokað. Styst er frá Drangalandi að fyrirhuguðu Eyvindarfjarðarlóni. Pétur Guðmundsson, Ófeigsfirði segist telja að það séu 3 – 3,5 km að því. Hann bendir á að verði framkvæmdir við Eyvindafjarðarlónið bannaðar minnkar Hvalárvirkjun verulega og óvíst að framkvæmdin myndi lengur teljast arðbær.

Eva B. Sólan Hannesdóttir, formaður starfshóps um friðun Dranga sagði í síðustu viku í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að ekki væri séð að friðlýsingin rekist sérstaklega á við fyrirhugaða Hvalárvirkjun en hins vegar kann 54. gr. laga nr. 60/2013 að koma til skoðunar vegna ákvæðisins um áhrif friðunarinnar að jafnaði 5 km útfyrir friðlýsa svæðið.

Ákvæðið áskilur að starfsemi eða framkvæmdir utan friðlýsts svæðis, sem geta haft áhrif á verndargildi friðlýsta svæðisins skuli taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis. Þá skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt og setja má skilyrði til að koma í veg fyrir skaða af starfseminni eða framkvæmdunum á hinu friðlýsta svæði.

Sérstaklega er nefnt að mannvirki og önnur tæknileg ummerki, svo sem raflínur, orkuver, miðlunarlón og uppbyggðir vegir eigi ekki að valda truflunum á því að njóta einveru og náttúrunnar á friðlýsta svæðinu.

DEILA