Vesturbyggð: óbreytt vatnsgjald næstu árin

Vesturbyggð hefur svarað erindi Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá því í maí varðandi vatnsgjald og heimilaða gjaldtöku með vatnsgjaldi. Ráðuneytið tilkynnti þá sveitarfélögum um þá niðurstöðu sína að vatnsgjald væri þjónustugjald en ekki skattur og að skýrt þurfi að liggja fyrir hvaða kostnaðarliði vatnsgjaldið megi að standa undir og ekki hvað síst að gjaldið megi ekki vera tekjulind umfram það. Beri því að stilla vatnsgjaldinu í hóf miðað við þær forsendur.

Ísafjarðarbær hefur ákveðið að lækka vatnsgjald af íbúðarhúnæði á næsta ári um 80% í kjölfar þess eins og greint hefur verið frá á Bæjarins besta.

Vesturbyggð hefur komist að annarri niðurstöðu. Í bréfi þess til ráðuneytisins segir að ekki sé ástæða til þess að breyta gjaldskránni umfram verðlagsbreytingar þar sem samkvæmt langtímaáformum muni óbreytt gjaldtaka standa undir rekstrarkostnaði næstu 15 árin og fjárfestingum næstu 5 árin auk þess sem Vatnsveitan sé í 20 m.kr. skuld við aðrar stofnanir sveitarfélagsins.

Það er því niðurstaða sveitarfélagsins að gjaldtakan sé í samræmi við kostnaðinn við að veita þjónustuna.

Yfirlit yfir rekstraráætlun vatnsveitunnar fyrir árin 2020-24 og áætlun yfir langtímafjárfestingar fylgja með svarinu til ráðuneytisins en eru ekki gerð opinber að svo stöddu.

DEILA