Vesturbyggð kærð til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Samgöngufélagið hefur kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál þá ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar að hafna því að gera ráð fyrir þverun Vatnsfjarðar við norðanverðan Breiðafjörð.

Úrskurðarnefndin hefur farið fram á að fá í hendur gögn er málið varða og er sveitarfélaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna innan 30 daga frá 18. október.

Samgöngufélagið gerir þá kröfu að lagt verði fyrir sveitarstjórn að annað hvort taka ákvörðunina upp að nýju og byggja
hana á frekari gögnum og upplýsingum og láta fylgja henni veigameiri rökstuðning en gert var eða, sem Samgöngufélagið telur e.t.v. heppilegra í stöðunni að fresta ákvörðun um legu vegarins í aðalskipulagi þar til endanlega er ljóst hvaða veglína af þeim sem koma til greina inn fjörðinn telst heppilegust.

Í bréfi Samgöngufélagsins er fundið að fátæklegum svörum sveitarfélagsins við framkomnum athugasemdum við aðalskipulagsbreytinguna og segir að „mest er þetta byggt á huglægu mati þeirra sem með þessi mál fara án þess að séð verði að kallað hafi verið sérstaklega eftir afstöðu t.d. íbúa sveitarfélagsins eða að sérstök óháð könnun á þessum atriðum farið fram.“

Í rökstuðningi sveitarstjórnar Vesturbyggðar við áðurnefndum athugasemdum segir: „Að mati sveitarfélagsins þá myndi þverun Vatnsfjarðar rýra mjög gildi friðlýsingar svæðisins þar sem þverun myndi skerða ásýnd svæðisins til muna. Núverandi veglína með bættum aðgerðum umhverfis Flókalund sem myndi gefa þeirri starfsemi meira pláss er talin hagkvæmari og skynsamari kostur. Þverun hefði óverulega styttingu í för með sér og ávinningur lítill miðað við umfang framkvæmdar við þverun.
Útfærsla á veginum við Flókalund er ekki ákveðin og þarfnast breytingar á aðalskipulagi. Þegar þar að kemur og verður það unnið í frekara samráði við Vegagerðina og aðra hagsmunaaðila.“

Um þetta segir Samgöngufélagið:

„Ekki liggur fyrir hvaða útfærslu á að ráðst í við Flókalund eftir því sem segir í áðursendu bréfi Vesturbyggðar né með hvaða hagsmunaaðilum verður unnið. Því er hins vegar treyst að enginn sem að ákvörðunum kom eða muni koma hafi persónuega eða fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðum þeirra eins og hætt er við í fámennari samfélögum.“

Loks segir í bréfi Samgöngufélagsins til úrskurðarnefndarinnar að félagið hafi sent tölvupóst til sveitarfélagsins 20. september og óskað eftir því að fá „sendar allar athugasemdir sem sendar voru inn í tengslum við auglýsingu tillögu að aðalskipulagi Vesturbyggðar fyrir árin 2018 til 2035 svo og að sendar verði eða vísað á fundargerðir byggingar- og skipulagsnefnar þar sem fjallað er um tillögu að aðalskipulaginu.“ Þessi póstur hefur ekki verið ítrekaður en viðbrögð hafa ekki borist, segir að lokum.

DEILA