Umhverfisráðuneyti spyr um Vestfjarðaveg 60

Umhverfisráðuneytið sendi sveitarstjórn Reykhólahrepps erindi í júlí síðastliðnum þar sem óskað er eftir upplýsingum um framkvæmdir við Vestfjarðaveg 60 í Gufudalssveit. Sveitarstjórnin samþykkti svar við erindinu á fundi sínum í síðustu viku. Þrír sveitarstjórnarmenn samþykktu svarið en tveir þeirra sátu hjá.

Í svarinu sem er nefnt stöðuskýrsla Reykhólahrepps nr 1 og er dagsett 27. september , er gerð grein fyrir stöðu framkvæmda við Vestafjarðaveg og aðgerða sem skal ráðast í til að lágmarka umhverfisáhrif. Minnt er á að framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar hafi verið bundið 28 skilyrðum sem eiga að draga úr umhverfisáhrifum af vegaframkvæmdinni. Síðan eru skilyrðin rakin og gerð grein fyrir stöðu þeirra, hvort þau hafi verið uppfyllt eða því sé ólokið.

Til að fylgja eftir skilmálum framkvæmdaleyfis og fylgjast með framvindu framkvæmda hefur Reykhólahreppur haldið upplýsingafundi með Vegagerðinni. Á fundum fer Vegagerðin yfir stöðu framkvæmda, rannsókna, mótvægisaðgerða og umræðu um hvort og hvað megi gera betur.

Þeir Ingimar Ingimarsson og Karl Kristjánsson, sem sátu hjá við afgreiðsluna, lögð fram bókun þar sem segir að Umhverfisráðuneytið sé að óska eftir greinargerð frá sveitarfélaginu vegna fyrirspurnar frá skrifstofu Bernarsamningsins sem er alþjóðlegur sáttmáli um vernd villtra plöntu og dýravistkerfa.

Í bókuninni segir :

„Við teljum að sveitarfélagið hafi ekki haft neina stöðu til að gæta hagsmuna umhverfis og samfélags við ákvörðun um leiðaval eins og kemur skýrt fram í bókunum sveitarstjórnar 22. jan 2019.
Við undirbúning stórframkvæmdar eins og Vestfjarðavegar 60 í Gufudalssveit er megin áhersla framkvæmdaaðila lögð á styttingu vegalengda og vegtæknileg atriði en umhverfissjónarmið og hagsmunir íbúa svæðisins hafa þar lítið vægi.“

Gera þeir athugasemdir við svör samgönguráðherra þess efnis að ríkið muni ekki setja meira fé í framkvæmdina sem sem nemur kostnaði við Þ-H leið og einnig að Vegagerðin greiði fyrir skipulagsvinnuna og geti þannig haft áhrif á faglegan undirbúning framkvæmda.

„Okkur finnst að þessi sjónarmið eigi að koma fram í svari Reykhólahrepps til ráðuneytisins en ekki bara einhver lofsöngur um mótvægisaðgerðir eftir að hafa verið þvinguð til að samþykkja versta kostinn fyrir umhverfi og samfélag í Reykhólahreppi.“

DEILA