Skáldkona gengur laus

Bjartur Veröld hefur gefið út bókina Skáldkona gengur laus. Bókin er afrakstur margra ára rannsókna Guðrúnar Ingólfsdóttur á handritum kvenna. Guðrún hefur áður sent frá sér bók um skylt efni, Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld og var hún þá tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Viðurkenningar Hagþenkis.

Í þessari bók er fjórum skáldkonum frá 19. öld sleppt lausum úr handritageymslu Þjóðarbókhlöðunnar svo þær megi endurnýja erindi sitt við heiminn.

Í kveðskap skáldkvennanna má sjá skýra sjálfsmynd en ekki síður menningarlegan bakgrunn og merkilega afstöðu til náttúrunnar og ímyndunarafls. Þær höfðu einnig ákveðnar hugmyndir um hlutverk sitt sem skálda. Meginerindi sitt töldu þær vera að bera ljós inn í líf fólks, en líka að benda á það sem miður fór.

Ein þessara skáldkvenna er Guðrún Þórðardóttir (1816/1817‒1896) frá Valshamri í Geiradal en hún fæddist á Tindum í sama dal. Guðrún giftist Brynjólfi Jónssyni og voru þau fyrst bændur á Kleifum í Gilsfirði, þá á Gróustöðum og að lokum á Valshamri í Geiradal. Árið 1883 fluttist Guðrún til Vesturheims með fjölskyldu sinni þar sem hún missti mann sinn, einkason og 11 sonarbörn. Lífið fór því sannarlega ekki mjúkum höndum um hana.

DEILA