Sjávarklasinn: 90% nýting á þorski hérlendis

Frá því er greint í október fréttablaði Sjávarklasans að Sjávarklasinn hefur gert úttekt á því hversu mikinn hluti þorskafurða er nýttur hérlendis en nýjar tölur hafa ekki legið fyrir um nokkur skeið. Athugunin leiddi í ljós að Íslendingar halda enn forystu í þessum efnum og nýtingarhlutfallið er rúmlega 90% sem er töluvert umfram það sem fyrri tölur gáfu til kynna. Segir í fréttablaðinu að enn séu þó veruleg tækifæri til að vinna meira úr hliðarafurðum og skapa verðmæti og ný störf.

„Fullvinnsla hliðarafurða er skilgreind hér sem nýting á öllum pörtum fisksins öðrum en fiskflakinu. Nýting hliðarafurða hefur verið lítil í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman eða einungis 45-55% af hvítfiski. Þarna er um veruleg verðmæti að ræða sem fara í súginn hjá öðrum þjóðum. Hér liggja því tækifæri fyrir aðrar sjávarútvegsþjóðir til að gera betur og fyrir Íslendinga að koma að þeim verkefnum með íslenska tækni og þekkingu.“

Við mat á nýtingu þorsksins var notast við gögn frá Hagstofu Íslands. Þar eru gögn um útflutning sem annars vegar eru gefin upp í tonnum og hinsvegar í verðmætum.

Samkvæmt útflutningstölum um allar helstu afurðir, sem fundust í gögnum Hagstofunnar, ásamt áætluðum tölum um hlutfall þorsks í útfluttum fiskúrgangi, má áætla að útflutningur ásamt innanlandsneyslu á þorski þýði að um 88,6% þorsks sé nýttur segir í niðurstöðum athugunarinnar sem Sjávarklaasinn gerði.

Það eru 35 fyrirtæki í landinu sem sinna lang stærstum hluta vinnslu hliðarafurða. Upplýsingar fengust um veltu tæplega 30 þessara fyrirtækja. Á árunum 2012 til 2019 jókst velta þessara fyrirtækja um 35%.

DEILA