Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á lausasölulyfjum og ýmsum öðrum vörum sem seldar eru í apótekum, þriðjudaginn 2. nóvember. Verð var kannað í öllum apótekum á landinu eða 26 útibúum.
Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði væri á bilinu 40-60% eða í 62 tilvikum af 149. Í 58 tilvikum var munurinn á bilinu 20-40%.
Með því að skoða meðalverð er auðveldara að átta sig á verði hjá þeim verslunum sem eru hvorki með hæsta verðið né það lægsta. Ef litið er til meðalverðs eða hversu hátt eða lágt verð á vörum í könnuninni var að jafnaði hjá söluaðilum má sjá að Costco var að meðaltali með lægsta verðið. Vöruúrvalið hjá Costco var einnig minnst en einungis 63 vörur voru til af 149 sem könnunin náði til. Taka skal fram að til að geta keypt lyf hjá Costco verður að greiða árlegt aðildargjald upp á 4.800 kr. Meðalverð á vörum í könnuninni var næst lægst hjá Lyfjaveri sem var með töluvert meira úrval en Costco eða 135 vörur af 149. Lyfjabúrið með hæsta meðalverðið en 115 vörur fengust þar og Lyfja var með næst hæsta meðalverðið.
Í mörgum tilfellum var mikill munur á hæsta og lægsta verði á algengum lausasölulyfjum. Sem dæmi má nefna 40% eða 4.227 kr. verðmun á 100 stk. af Kestine ofnæmistöflum (20 mg). Lægst var verðið í Austurbæjarapóteki, 10.673 kr. en hæst 14.900 kr. hjá Apótekinu Mos. Þá var 190% eða 2.172 kr. munur á hæsta og lægsta verði af ofnæmislyfinu Clarityn (10 mg, 30 stk), 37% eða 799 kr. verðmunur á gigtarlyfinu Glucomed, 1.904 kr. verðmunur á Voltaren forte hlaupi og 659 kr. verðmunur á verkjalyfinu Ibuxin rapid.