Lömbin talsvert vænni nú en í fyrra

Sláturhúsið á Hvammstanga

Í liðinni viku sagði Ríkisútvarpið frá því að sláturtíð væri nú víðast hvar að ljúka en í einhverjum sláturhúsum verður þó slátrað fram í nóvember.

Hjá sláturhúsinu á Hvammstanga er meðalþyngd dilka talsvert hærri en í fyrrahaust og það þakkar sláturhússtjórinn sífellt betri árangri bænda við ræktun.

Í fréttinni var rætt við Bolvíkinginn Davíð Gestsson sem þar er sláturhússtjóri og sagði hann: „að 150 manns hafa unnið við slátrun á Hvammstanga frá því um mánaðamótin ágúst september. Heldur færri voru við slátrun þar nú en í fyrra, að mestu pólskir verkamenn. Það helgast dálítið af því að fólk var ragt við að láta bólusetja sig og koma, en við mæltumst til þess að fólk myndi koma bólusett. En svona heilt yfir gekk þetta bara nokkuð vel, nokkuð góður mannskapur sem við höfum.“

Samtals var 92.500 fjár slátrað á Hvammstanga og yfir 90 prósent af því lömb sem hann segir hafa verið talsvert vænni en í fyrrahaust og meðalvigtin því hærri. „Já, ég held að við séum að fara einhver 400 grömm yfir síðasta ár. Það þykir nokkuð gott.“

DEILA