Laxeldi: breytingar á eldissvæðum þurfa ekki í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhugaðar breyingar Arnarlax og Arctic Sea Farm á elsisvæðum í Patreksfirði og Tálknafirði þurfi ekki að fara í umhverfismat. Ákvörðunina má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur til 13. desember 2021.

Bæði Arnarlax og Arctic Sea Farm eru með rekstrarleyfi og starfsleyfi fyrir eldi í Patreks- og Tálknafirði. Heimilaður hámarkslífmassisamkvæmt leyfum er 12.200 tonn í tilfelli Arnarlax og 7.800 tonn í tilfelli Arctic Sea Farm, samanlagt 20.000 tonn.
Fyrirtækin áforma nú að breyta tilhögun eldis hvað varðar staðsetningu og afmörkun eldissvæða auk þess að stytta lágmarkshvíldartíma úr 6 mánuðum í 90 daga.

Breytingarnar eru þríþættar. Í fyrsta lagi er eldissvæði sem nú er við Hlaðseyri innarlega í Patreksfirði fært utar í fjörðinn að Vatneyri, svæði sem er utan til við þorpið. Við Vatneyri eru sterkari straumar og góð vatnsskipti sem beri eldið betur.

Í öðru lagi er eldissvæði við Eyri í Patreksfirði stækkað til að auðveldara verði að staðsetja eldisbúnað innan afmörkunar og loks er svæði við Kvígindisdal í Patreksfirði stækkað til þess að eldissvæði gæti rúmað 12 kvíar í einu í stað 10 auk
alls þess búnað sem fylgir starfseminni.

Þá er ætlunin að stytta lágmarkshvíldartíma eldissvæða úr 6 mánuðum, skv. núgildandi leyfi, í 90 daga.

Þá var í umsókn áformað að stækka eldissvæði við Laugardal í Tálknafirði, en hætt var við það að fenginni umsögn Landhelgisgæslunnar.

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguðar breytingar séu ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

DEILA