Lagst gegn laxeldi og kalkþörunganámi í Ísafjarðardjúpi

Átján aðilar gerðu athugasemdir við lýsingu að svæðisskipulagi fyrir Vestfirði. Sautján þeirra voru frá félagsamtökum , fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum. Ein athugasemd barst frá einstaklingi. Það var frá Viðari Má Matthíassyni, fyrrverandi hæstarréttardómara, en hann er einn eigenda að jörðunum Ármúli I og II. Jarðir þessar eiga land að sjó í austanverðu Ísafjarðardjúpi frá ósum Selár í suðri og til ósa nyrstu kvíslar Mórillu í norðri.
Ætla má að strandlengja jarðanna, sem eru í óskiptri sameign, sé um 8 km að minnsta kosti samkvæmt því sem fram kemur í bréfi hans.

Viðar Már leggst eindregið gegn laxeldi í Djúpinu og einnig er hann andvígur námi kalkþörunga sem leyft hefur verið og er undirstaðan að væntanlegri kalkþörungaverksmiðju í Súðavík.

„Ég tel að mikilvægt sé í allri skipulagsvinnunni að gengið sé út frá því að engin mengandi starfsemi verði heimiluð í Ísafjarðardjúpi. Með mengandi starfsemi á ég við starfsemi sem hefur skaðleg áhrif á umhverfið, hvort sem það er vegna úrgangs eða áhrifa á lífríki t.d. með því að spilla náttúrlegum fiskistofnum eða stofnun annarra sjávardýra eins og rækju. Hér er ekki sízt átt við úrgang frá fiskeldi í opnum sjókvíum, bæði sem eldisdýrin losa sjálf og fóður, sem ekki er étið af þeim. Þá er einnig átt við leifar af lyfjum sem fiskeldisiðnaðurinn notar gegn laxalús og annarri óværu í eldisdýrunum. Loks er átt við hættu fyrir náttúrlega fiskistofna vegna slysasleppinga. Ég hvet til þess að skýrt komi fram í slíku skipulagi að allur vafi skuli vera metinn náttúrunni í hag.“

Viðar Már Matthíasson vill einnig vernda fulga á svæðinu og búsvæði þeirra svo og leirur og dýraríki á þeim. Vísar hann sérstaklega til Kaldalóns.

Athugasemdunum lýkur með þessum orðum:

„Loks tel ég að koma eigi í veg fyrir allt nám kalkþörunga í Ísafjarðardjúpi.“

Í umsögn svæðisráðs segir að horft verði til framkominni sjónarmiða um nýtingu og vernd á strandsvæðum og metin áhrif af nýtingu og vernd á umhverfi og samfélag.

Svæðisráðið ber ábyrgð á gerð strandsvæðaskipulagsins og gerir tillögu til ráðherra um það.

DEILA