Lagarlíf 2021: metþátttaka – á fimmta hundrað skráðir þátttakendur

Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Lagarlífs í ræðustól. Mynd: Sigurður Pétursson.

Á fimmta hundrað skráðu sig á ráðstefnuna Lagarlíf- eldi og ræktun sem haldin var í síðustu viku á Grand hótel í Reykjavík. Þetta var fjórða ráðstefnan sem haldin er undir og sú fjölmennasta.

Það er fyrirtækið Strandbúnaður ehf sem stendur að ráðstefnuhaldinu í því skyni að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir,  þróun og stefnumótun greinarinnar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu.

Stjórn Strandbúnaðar skipa Halldór Halldórsson stjórnarformaður, Jón Páll Baldvinsson, Páll Marvin Jónsson, Elvar Traustason, Sara Atladóttir og Anna Guðrún Edvardsdóttir.

Halldór Halldórsson stjórnarformaður sagði að ráðstefnan hefði gengið vel og metaðsókn hefði verið. Haldnar voru 10 vinnustofur og erindin skiptu tugum. Rætt var um starfsmenntun í fiskeldi, vinnuvernd og öryggiskröfur,nýtingu á þörungum, skelrækt, landeldi, seiðaframleiðslu, strandsvæðaskipulag, fóðurgerð og ýmsar rangar staðhæfingar um sjókvíaeldi.

Halldór segir að ýmislegt megi læra af ráðstefnunni um skipulag hennar og verður það rætt á næstunni þegar undirbúningur að næstu ráðstefnu hefst. Eitt af því sem Halldór nefndi er að bjóða sérstaklega til vinnustofu með þeim sem eru andvígir fiskeldinu og gefa þeim kost á að tala fyrir sínu máli.

Myndir: Gunnar Davíðsson, Sigurður Pétursson

DEILA