Á bæjarstjórnarfundi síðasta fimmtudag voru samþykktar reglur um afslátt á dagvistargjöldum í Ísafjarðarbæ. Að sögn upplýsingafulltrúa bæjarins voru þetta reglur fyrir einstæða foreldra og foreldra sem báðir eru í námi.
Hingað til hefur þessi afsláttur eingöngu verið auglýstur með gjaldskrá og skilyrðin verið sett fram í tilheyrandi umsóknareyðublaði. Engin breyting var á afslættinum né skilyrðunum.
Samkvæmt reglunum er 35% afsláttur frá leikskólagjaldi og hálfu aukagjaldi veittur til einstæðra foreldra og ef báðir foreldrar eru í fullu námi. Einstæðir foreldrar þurfa að framvísa vottorði frá sýslumanni um að viðkomandi sé að fá greitt meðlag. Námsmenn framvísa skólavottorði fyrirfram fyrir hverja önn þar sem fram koma upplýsingar um einingafjölda og staðfestingu á því að um fullt nám sé að ræða og foreldri því utan vinnumarkaðar.