Ísafjarðarbær : hjólastefna lögð fram

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt drög að hjólastefnu fyrir sveitarfélagið, sem Gylfi Ólafsson, fulltrúi í íþrótta- og tómstundanefnd vann, að beiðni íþrótta- og tómstundanefndar Ísafjarðarbæjar. Fer málið nú til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

Í inngangi að stefnunni segir að „meðal fullorðins fólks á Íslandi eru Vestfirðingar duglegastir að hjóla og ganga til vinnu og skóla. Ísafjarðarbær er nefnilega að mjög mörgu leyti í öfundsverðri stöðu. Staða virks ferðamáta er betri en víðast á landinu. Hámarkshraði í þéttbýli er lágur. Eyrarnar eru flatar og vegalengdir stuttar.“

Þessi áætlun tekur til daglegrar notkunar reiðhjóla sem fararmáta. Tekur stefnan til notkunar á rafhjólum, rafhlaupahjólum, hjólabrettum, léttum rafmagnsvespum, rafskutlum og öllum öðrum hjólum og léttum fararskjótum.

Bent er á að ósennilegt er að hjólreiðar geti orðið daglegur fararmáti milli Ísafjarðar annarsvegar og annarra byggðakjarna sveitarfélagsins eða nágrannasveitarfélaga.

Sett eru fram þrjú markmið. Þau ná hvert til síns aldurshóps.

Í áætluninni eru settar fram 10 aðgerðir sem eru til þess að ná ofangreindum markmiðum. Meðal aðgerða er að merkja svokallaða hjólavísa á 30 götur í byggðarlögum sveitarfélagsins, mála hjólaleiðir, setja upp hjólaskýli, bæta merkingar og gera ferðavenjukannanir.

DEILA