Fiskeldi: úrskurðarnefnd ógildir ákvörðum Mast um leyfi í Önundarfirði

Kvíar Arctic Fish í Dýrafirði.

Í gæ felldi úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál úr gildi þá ákvörðum Matvælastofnunar að hafna Arctic Sea Farm um framlengingu á 200 tonna leyfi til fiskeldis á regnbogasilungi og bleikju í Önundarfirði.

Verður stofnunin nú að taka fyrir að nýju erindi Arctic Sea Farm um framlengingu leyfisins.

Tildrög málsins eru þau að 19. júlí 2011 var gefið út rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og bleikju í Önundarfirði með heimild til framleiðslu á allt að 200 tonnum árlega. Gildistími leyfisins var í 10 ár, eða til 19. júlí 2021.

Hinn 27. janúar 2020 tilkynnti Matvælastofnun kæranda um afturköllun rekstrarleyfisins með vísan til þess að rekstrarleyfið hefði ekki verið í notkun. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2020, var sú ákvörðun afturkölluð. Kom m.a. fram að veittur yrði frestur til 21. febrúar 2021 til að hefja starfsemi samkvæmt leyfinu.

Kærandi sótti um endurnýjun rekstrarleyfisins 20. janúar 2021. Með bréfi Matvælastofnunar, dags. 30. júní 2021, var umsókn kæranda hafnað með vísan til þess að ekki hefði verið sótt um endurnýjun rekstrarleyfisins sjö mánuðum áður en þágildandi rekstrarleyfi hefði runnið út.

Úrskurðarnefndin bendir á að lögum samkvæmt sækja beri um framlengingu leyfis áður en það rennur út og að það hafi verið gert.  Ákvæði reglugerðar, sem Mast beri fyrir sig, um að umsókn þurfi að berast sjö mánuðum áður en leyfið rennur út gangi lengra en lagaákvæðið. Tilgangur þess sé hins vegar sá, að mati úrskurðarnefndarinnar, að gefa Matvælastofnun svigrún til þess að leggja mat á hvort umsækjandi um endurnýjun rekstrarleyfis uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til rekstursins skv. 2. mgr. lagagreinarinnar. Matvælastofnun framkvæmdi ekki matið og synjun umsóknarinnar án þess sé íþyngjandi fyrir umsækjanda og var það því niðurstaða nefndarinnar að fella synjunina úr gildi.

Málið stendur þá þannig að umsóknin um framlengingu leyfisins er óafgreidd hjá stofnuninni og væntanlega er það næsta skref að taka umsóknina til afgreiðslu.

DEILA