Breytingar á aðalnámskrá grunnskóla

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur gert umfangsmiklar breytingar á aðalnámskrá grunnskóla og er unnið að kynningu á þeim fyrir skólasamfélagið. Markmið breytinganna er að tryggja börnum með annað tungumál en íslensku og öðrum fjöltyngdum börnum menntun sem undirbýr þau undir virka þátttöku í samfélaginu og nám á öðrum skólastigum.

Breytingar á aðalnámskrá grunnskóla verða innleiddar í samvinnu við Menntamálastofnun m.a. með útgáfu stuðningsefnis í námsgreinum, fræðsluvef um kennslu íslensku sem annars máls, útgáfu námsefnis í íslensku sem öðru tungumáli, fræðslufundum og starfsþróunartilboðum.

Helstu áherslur breytinganna:

• Við lok grunnskóla skal gefa nemendum lokaeinkunn í íslensku sem öðru tungumáli ef þeir hafa fylgt viðmiðum um hæfni samkvæmt hæfnirömmum íslensku sem annars tungumáls allt til loka grunnskóla.

• Kanna skal námslega stöðu nemenda meðal annars á sterkasta tungumáli þeirra. 


• Ábyrgð á íslenskunámi hvílir á skólastjórnendum, umsjónarkennurum, íslenskukennurum og kennurum allra námssviða sem þurfa að vinna saman til að námið verði markvisst.

• Markmið með kennslu íslensku sem annars máls eru að nemendur tileinki sér og læri íslensku þannig að þeir geti stundað alhliða nám í íslensku skólastarfi með jafnöldrum og tekið virkan þátt í samfélaginu.

• Foreldrar bera ábyrgð á að styðja við íslenskunám barna sinna og að rækta og þróa eigið móðurmál til að stuðla að virku fjöltyngi.

DEILA