Bónus: nýtt útlit og breyttur grís

Frá Bónus Ísafirði.

Nýtt útlit Bónus og lengri afgreiðslutími

Eitt þekktasta vörumerki landsins, Bónus, hefur verið endurnýjað og fært í nútímalegri búning með grísnum þekkta segir í fréttatilkynningu frá Bónus.

„Af hverju er verið að fikta í því sem er í lagi gæti einhver spurt? Jú grísinn hefur verið óbreyttur í yfir 30 ár og er nú að fá upplyftingu í fyrsta sinn. Þessi breyting er gerð til þess að aðlaga vörumerkið að þeirri stafrænu vegferð sem framundan er í okkar rekstri. Margt af því sem við höfum staðið fyrir í áranna rás höfum við ekki verið nægilega dugleg að segja frá. Í rýni starfsfólks okkar kom fram að þótt við vitum að Bónus hafi hætt að selja plastpoka tveimur árum á undan öðrum á markaðnum þá sé það samt ekki á allra vitorði. Sama á við um margt annað sem við höfum gert sem snýr að sparnaði og samfélagsábyrgð. Við vorum fyrst til að innleiða rafræna verðmiða, eini stórmarkaðurinn sem hefur aldrei selt tóbak, við komum að stofnun pokasjóðs og höfum leitt jákvæðar breytingar í íslenskri verslun. Við höfum alltaf lagt okkur fram um að neytendur fái sem mest fyrir krónuna sína í Bónus með sama verði í öllum okkar verslunum um land allt.“

Síðan 1989 hefur vörumerki Bónus ekkert breyst. Með breytingunni nú mun merkið henta betur til stafrænnar noktunar en einnig verður hægt að nota merkið með nýjum hætti í verslunum Bónus og í almennum auglýsingum. Nýja ásýndin mun auðvelda skilaboðagerð og samskipti, m.a. á samfélagsmiðlum. Um leið hefur orðmerkið „Bónus“ verið uppfært í stíl við nýja grísinn.

Opið lengur

„Afgreiðslutími verslana hefur framan af verið liður í að halda niðri kostnaði. En þegar við hugsuðum að við vildum líka spara tíma viðskiptavina og nýta fermetrana okkar betur þá varð ljóst að við yrðum að lengja afgreiðslutíma verslana. Við ætlum því að hafa opið lengur héðan í frá, um leið og við kynnum nýja grísinn til leiks. Við svörum því kalli viðskiptavina um lengri afgreiðslutíma.

Afgreiðslutími verður sem hér segir:
Á Smáratorgi, Skeifunni, Spönginni, Fiskislóð, Helluhrauni, Mosfellsbæ og Langholti á Akureyri verður framvegis opið frá kl. 10:00 – 20:00 alla daga.


Almennur afgreiðslutími verður mánudaga til fimmtudaga frá kl. 11:00 – 19:00 en föstudaga til sunnudaga frá kl. 10:00 – 19:00.

Á Egilsstöðum, Eyjum, Ísafirði og Stykkishólmi verður opið mánudaga til fimmtudaga frá kl. 11:00 – 18:30, föstudaga frá kl. 10:00 – 19:00 og laugardaga og sunnudaga frá kl. 10:00 – 18:00.

„Framundan eru spennandi tímar“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, „við erum með Íslendingum í liði og nýi grísinn mun minna okkur á það á hverjum degi þegar við aðstoðum og þjónustum viðskiptavini í verslunum okkar.“
DEILA