Bæjartúni synjað um framlög til leiguíbúða

Teikning af fyrirhugaðri byggingu Hrafnshóls á Ísafirði.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, hefur synjað Bæjartúni íbúðafélag hses. um stofnframlag og sérstakt byggðaframlag til byggingar leiguíbúða í Ísafjarðarbæ ætluðum tekju- og eignalægri leigjendum.

Sótt var um stofnframlag vegna byggingar þriggja íbúða við Drafnargötu á Flateyri, þriggja íbúða við Sætún á Suðureyri og fjögurra íbúða við Hlíðargötu á Þingeyri. Synjun umsóknanna byggði á því að umsóknirnar samræmdust ekki ákvæðum laga og reglugerða sem um stofnframlög gilda, sérstaklega laga um almennar íbúðir nr. 52/2016 sem heimila ríki og sveitarfélögum að veita stofnframlög til kaupa eða byggingar íbúða ætluðum leigjendum undir tilteknum tekju- og eignamörkum. Í lögunum er m.a. kveðið á um hvaða kröfur eru gerðar til hagkvæmni íbúðanna sem og hvaða kröfur þeir sem sækja um stofnframlög þurfa að uppfylla.

Í svari HMS við fyrirspurn Bæjarins besta segir að umsóknunum hafi nánar tiltekið verið synjað á þeim grundvelli að íbúðirnar sem sótt var um stofnframlag til byggingar á væru ekki eins hagkvæmar og kostur væri og því væri leiguverð ekki eins hagkvæmt og kostur væri. Auk þess var á því byggt að rekstur Bæjartúns íbúðafélags hses. uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar voru til þeirra sem sækja um stofnframlög.

Víða á Vestfjörðum hefur verið byggt fyrir Bæjartún svo sem á Bíldudal gjarnan í samstarfi við byggingafélögin Nýjatún og Hrafnshól.

Í byrjun mánaðarins var synjun HMS tekin fyrir í bæjarráði Ísafjarðarbæjar og lýsti bæjarráðið yfir vonbrigðum um að byggingaáform Bæjartúns hses. hafi ekki gengið eftir og fól bæjarstjóra að vinna að leiðum til áframhaldandi uppbyggingar íbúðarhúsa í sveitarfélaginu.

DEILA