Vesturbyggð: gerir alvarlegar athugasemdir við úthlutun úr Fiskeldissjóði

Bæjarráð Vesturbyggðar gerir alvarlega athugasemd við úthlutun úr fiskeldissjóði 2021 og hefur óskað eftir rökstuðningi frá stjórn Fiskeldisjóðs. Af fimm umsóknum Vesturbyggðar var þremur synjað og tvær lækkaðar verulega.

Bæjarráðið gerir bæjarráð athugasemd við að aðeins minnihluti tekna í sjóðnum rennur til sveitarfélaga á Vestfjörðum en Vesturbyggð hefur staðið í innviðauppbyggingu vegna fiskeldis síðan árið 2010. Þá ítrekar bæjarráð fyrri umsagnir sveitarfélagsins þar sem athugasemdir hafa verið gerðar um fyrirkomulag við útdeilingu tekna vegna gjaldtöku af fiskeldi í gegnum fiskeldissjóð.

Uppbygging fiskeldis krefst aukinnar innviðauppbyggingar

„Í umsögnum sveitarfélagsins hefur ítrekað verið bent á að, í samræmi við álit nefndar um stefnu í auðlindamálum sem og tillögur í skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi frá 21. ágúst 2017, að stærstum hluta gjaldsins ætti að vera ráðstafað til þeirra landsvæða sem hafa aðkomu að fiskeldi í sjókvíum, eða 85% af innheimtu gjaldi. Ljóst er af úthlutun fiskeldissjóðs 2021 að útdeiling tekna af gjaldtöku af fiskeldi í sjó sé ekki í samræmi við fullyrðingar í greinagerð laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð nr. 89/2019, þar sem kom fram að samhliða uppbyggingu fiskeldis munu kröfur um innviðauppbyggingu og þjónustu í viðkomandi sveitarfélögum aukast. Þannig má gera ráð fyrir auknum útgjöldum ef efla þarf samfélagsþjónustu við íbúa og bæta samgöngur. Tekjustofnar sveitarfélaga eru takmarkaðir og því mikilvægt að þær tekjur sem falla til á grundvelli laganna renni til sveitarfélaganna þar sem nýting auðlindarinnar og starfsemi fyrirtækja í fiskeldi fer fram og þörfin til uppbyggingar þjónustu er einna mest.

Bæjarráð Vesturbyggðar hvetur komandi ríkisstjórn til að endurskoða fyrirkomulagið og tryggja í auknara mæli að þær tekjur sem skapast verði sannarlega eftir þar sem fiskeldið og verðmætasköpunin fer fram.“