Uppskrift vikunnar: hjörtu og lifur

Nú er einmitt tíminn til að matreiða innmat. Mörgum finnst innmaturinn ekki girnilegur en auðvelt er að matreiða dýrindis rétti úr honum. Hér eru tvær aðeins öðruvísi uppskriftir en við þekkjum, hvað skulum við segja, frá ömmu.

Það er svo sannarlega ekki amalegt að vera með máltíð sem kostar innan við 1500 kr. Verði ykkur að góðu.

Uppskrift 1

Lambahjörtu í brúnni sósu

1 laukur
1 kg hjörtu
1 msk. kjötkraftur
1 msk. púrtvín
1 tsk. blóðberg eða timjan
1 tsk. pipar
1 tsk. paprikuduft
2 msk. maizena-mjöl
750 ml vatn
½ dl rjómi
½ msk. matarolía

Aðferð:
Steikið laukinn upp úr olíunni, skerið hjörtun í 6– 8 bita hvert og snyrtið þau. Steikið hjörtun með lauknum og látið brúnast. Hellið púrtvíni og vatni yfir. Bætið kryddinu í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla í að minnsta kosti 40 mínútur. Látið suðuna koma upp aftur, hrærið maizenamjölið út í einum dl af köldu vatni og hrærið saman við sósuna í pottinum. Smakkið til með salti og pipar og öðru kryddi ef þið viljið. Berið fram með meðlæti að eigin vali, t.d. kartöflumús, grænmeti og rabbarbarasultu.

Uppskrift 2

Súrsæt lifur

500 g lifur í þunnum sneiðum eða strimlum
hveiti til að velta lifrinni upp úr
2 msk. matarolía og smá smjör til steikingar
salt og pipar
sítrónusafi
1½ rauð paprika
2 msk. hrásykur
1 stór laukur, skorinn í báta
2 cm engiferrót, skorin í fínlega julienne- strimla
1 hakkaður hvítlauksgeiri
2 msk. tómatþykkni
1 glas ananassafi
2 msk. edik
2 msk. sojasósa
1 glas kjúklingasoð (teningur)
maizenamjöl til þykkingar, leyst upp í vatni.

Aðferð:
Mýkið lauk og papriku á pönnu í olíu og smjöri. Bætið glasi af ananassafa út á og því næst öllu nema maizenamjöli og kjöti. Látið sósuna krauma í 5 mínútur og þykkið eftir smekk með maizenamjöli.
Snöggsteikið hveitiborna lifrina á annarri pönnu upp úr ögn af smjöri og olíu. Færið lifrina upp á fat og hellið sósunni yfir.
Berið fram með soðnum hrísgrjónum eða kartöflustöppu.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdóttir

DEILA