Á vefnum má nálgast ýmsan fróðleik sem tengist starfsemi Alþingis. Þar má nefna hugtakasafn þar sem hægt er fletta upp helstu hugtökum sem gagnlegt er að þekkja til að skilja betur störf Alþingis. Sýnt er á myndrænan hátt hvernig frumvarp verður að lögum og hægt er að velja lagafrumvarp til að máta við ferlið, sjá hvernig það hefur farið í gegnum þingið og hvaða breytingum það hefur tekið á leiðinni.
Á söguás er stiklað á helstu tímamótum í sögu Alþingis og raktar mikilvægustu breytingar sem orðið hafa á Alþingi og umhverfi þess frá stofnun til samtíma. Sögu Alþingishússins og Alþingisgarðsins eru einnig gerð skil og bent er á ýmsar leiðir til að fylgjast með störfum Alþingis og hafa áhrif á gang mála.
Loks eru á vefnum þrautir og verkefni fyrir nemendur til að spreyta sig á til stuðnings við kennslu, meðal annars í samfélagsfræði, sögu og stjórnmálafræði.
Ungmennavefur Alþingis er sérstaklega ætlaður nemendum í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum.