Tálknafjörður gerir athugasemdir við úthlutun Fiskeldissjóðs

Frá Tálknafirði.

Fiskeldissjóður hafnaði umsókn frá Tálknafjarðarhreppi um styrk vegna endurbóta á hafnarsvæði hreppsins. Atvinnu- og hafnarnefnd hefur óskað eftir rökstuðningi fyrir synjunni.

Sveitarstjórnin tók málið fyrir á fundi sínum í vikunni og gerði ítarlega bókun um afgreiðslu sjóðsins. Þar er gerð alvarleg athugasemd við synjunina og bent á að hún sé ekki í samræmi við tillögur sem fyrir liggja um ráðstöfun fjárins og er ríkisstjórnin hvött til þess endurskoða úthlutunarfyrirkomulagið.

„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps gerir alvarlegar athugasemdir við úthlutun úr Fiskeldissjóði 2021 þar sem minnihluti úthlutana úr sjóðnum kom til Vestfjarða þaðan sem meirihluti tekna sjóðsins kemur. Sveitarfélagið hefur unnið að innviðauppbyggingu vegna fiskeldis síðan 2010 og hefur áður bent á að gjöld af fiskeldi eigi að renna beint til
þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið er stundað.
Þær ábendingar eru í samræmi við álit nefndar um stefnu í auðlindamálum sem og tillögur í skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi frá 21. ágúst 2017, að stærstum hluta gjaldsins ætti að vera ráðstafað til þeirra landsvæða sem hafa aðkomu að fiskeldi í sjókvíum, eða 85% af innheimtu gjaldi. Ljóst
er af úthlutun fiskeldissjóðs 2021 að útdeiling tekna af gjaldtöku af fiskeldi í sjó sé ekki í samræmi við fullyrðingar í greinagerð laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð nr. 89/2019, þar sem kom fram að samhliða uppbyggingu fiskeldis munu kröfur um innviðauppbyggingu og þjónustu í viðkomandi sveitarfélögum aukast. Þannig
má gera ráð fyrir auknum útgjöldum ef efla þarf samfélagsþjónustu við íbúa og bæta samgöngur. Tekjustofnar sveitarfélaga eru takmarkaðir og því mikilvægt að þær tekjur sem falla til á grundvelli laganna renni til sveitarfélaganna þar sem nýting auðlindarinnar og starfsemi fyrirtækja í fiskeldi fer fram og þörfin til uppbyggingar þjónustu er einna mest.
Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hvetur komandi ríkisstjórn til að endurskoða fyrirkomulagið og tryggja í auknum mæli að þær tekjur sem skapast af fiskeldi verði sannarlega eftir þar sem fiskeldið og verðmætasköpunin fer fram.“

DEILA