Súðavík: skrifað undir samstarfssamning um kalkþörungaverksmiðjuna

Frá undirritun samstarfssamningsins. frá vinstri: Bragi Þór Rhoroddsen sveitarstjóri, Halldór Halldórsson, Árni Þorgilsson og Samúel Kristjánsson, oddviti.

Á laugardaginn var skrifað undir samstarfssamning milli Súðavíkurhrepps og Íslenska kalkþörungafélagsins um byggingu nýrrar verksmiðju í Súðavík. Framkvæmdir eru í undirbúningi við landfyllingu og fyrirstöðugarð innan til við Langeyrina þar sem verksmiðjan mun rísa.

Áætlað er að fullbúin verksmiðja vinni um 120.000 m³ af kalkþörungaseti úr Ísafjarðardjúpi á ári þegar hámarksafköst fást. Um 30 störf munu skapast við rekstur verksmiðjunnar og afleidd störf að auki. 

Undirritunin fór fram á borgarafundi sem haldin var í Súðavíkurskóla.

Á fundinum var farið yfir þau málefni sem brenna á íbúum og sveitarstjóri og sveitarstjórn sátu fyrir svörum. Dagskrá var opin um málefni sveitarfélagsins um hvaðeina og endurspeglaði umræðan það. Var opnað á umræðum um sameiningarmál og var það helst af þeirri umræðu að marka að íbúum finnst að samgöngur þurfi að spila þar hlutverk, enda erfitt landfræðilega að sameinast nágrönnum. Álftafjarðargöng væru í raun forsenda þess að opna möguleika á sameiningu, nema farið sé fram hjá landafræðinni í því samhengi. Rætt var um gróður í þorpinu í Súðavík, aspir og lággróður, og skiptar skoðanir um ágæti. Þá var farið yfir málefni sem varða sölu eigna á Langeyri og um það skiptar skoðanir. Eignir voru seldar hæstbjóðanda og fátt meira um það að segja. Ívilnandi gerningur gagnvart Bj.sv. Kofra er innan þess sem sveitarstjórn hafði ákveðið og kaupsamningur um það húsnæði sem þeim er útvegað á nýjum stað er undantekning frá þeirri stefnu að selja ekki einstök bil í húsunum á Langeyri. Þá var rætt um stjórnsýslu í sveitarfélaginu og afgreiðslu erinda sveitarstjóra og sveitarstjórnar. Um það eru skiptar skoðanir þegar kemur að upplýsingaskyldu um afdrif mála en farið yfir það sem gildir að stjórnsýslurétti. Einnig farið yfir félagsstarf, eflingu þess fyrir eldri karlmenn samfélagsins og um líkamsrækt á Langeyri, framtíð þeirrar starfsemi og staðsetningu. Þau mál munu óhjákvæmilega taka breytingum m.t.t. sölu á húsnæði á Langeyri sem hýst hefur líkamsræktaraðstöðu. Unnið verður að lausn hvorutveggja.

Halldór Halldórsson framkvæmdastjóri Íslanska kalkþörungafélagsins.
Um þrjátíu manns mættu á fundinn. Myndir: Bragi Þór Thoroddsen.

DEILA