Liðlega 40% auking varð í þorskveiðum strandveiðiflotans frá 2016 til 2021. Fyrra árið veiddust 7900 tonn af þorski en 11.171 tonn í ár. Bátum fjölgaði úr 594 í 672 á sama tímabili. Þetta kom fram í ræðu Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda á aðalfundi samtakanna sem hófst í gær.
Þorskaflinn hefur aldrei verið meiri frá upphafi strandveiða 2009. Hefur aflinn nærfelt þrefaldast á tímabilinu.
Aflahæstur strandveiðibátanna í sumar varð Agla ÁR með 51 tonn. Eigandi og útgerðarmaður er Hnífsdælingurinn Aðalbjörn Jóakimsson.
Landað mest á Patreksfirði
Mestur afli barst á land á Patreksfirði í strandveiðunum í sumar eða um 1200 tonn. Næst aflahæst var Bolungavík þar sem landað var um 1050 tonnum. Norðurfjörður í Árnshreppi var fimmta hæsta höfnin með 600 tonn og Suðureyri í sjötta sæti með svipað. Á Tálknafirði var landað nærri 400 tonnum og var staðurinn í 11. sæti yfir hafnir landsins.
Fjöldi landana var einnig mestur á Patreksfirði en þar voru rúmlega 1700 landanir og næst kom Bolungavík eða um 1500 landanir. Suðureyri varð í þri’ja sæti með um 900 landanir.