Slökkvilið Ísafjarðar: gerð athugasemd við 15 atriði

Slökkvistöð Ísafjarðar.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gerir 17 athugasemdir í úttekt á Slökkviliði Ísafjarðar. Tvö þeirra eru lítils háttar en 15 eru ýmist ekki í lagi eða þarfnast úrbóta.

HMS framkvæmdi úttektina þann 8. september 2021. Markmiðið var að staðreyna hvort framkvæmd starfs slökkviliðsins væri í samræmi við lög um brunavarnir, reglugerðum settum á grundvelli þeirra og brunavarnaáætlun sveitarfélagsins og koma á framfæri leiðbeiningum til sveitarstjórnarinnar um það sem betur mætti fara eftir því sem við á.

Leitað var umsagnar slökkviliðsstjóra við úttektina og við niðurstöður hennar var tekið tillit til fenginna athugasemda hans. HMS leggur til við sveitarstjórn að ráðist verði í nauðsynlegar úrbætur og er þess óskað að HMS berist svar frá sveitarstjórn með áætlun um úrbætur við athugasemdum stofnunarinnar.

Ekki í lagi

Þrjú atriði eru skilgreind sem ekki í lagi. Fyrst þeirra er plássþörf slökkvistöðva. Um það segir:

Slökkvistöðvar þurfa að uppfylla kröfur um kaffistofur, snyrtingar og böð. Slökkvistöðvar á Suðureyri og Þingeyri uppfylla ekki þær kröfur þar sem hvorki starfsmannaaðstaða, né snyrting er til staðar.
Gera þarf ráð fyrir a.m.k. 1,5 m vinnusvæði kringum slökkvibíl. Slökkvistöðvar á Ísafirði og Þingeyri uppfylla ekki þær kröfur.

Þá er gerð athugasemd við eiturefnagalla slökkviliðsins.

„Slökkviliðið hefur úrelta eiturefnagalla til umráða. Yfirfara þyrfti gallana og þrýstiprófa til að kanna hvort þeir séu öryggir til notkunar.“

Þriðja atriði sem ekki er í lagi er aldur bífreiða. Um þð segir í skýrslunni:

„Aldur bifreiða slökkviliðs er ekki í samræmi við leiðbeiningar um lágmarksbúnað, afskriftir og úreldingu búnaðar slökkviliða. Dælubifreið á Suðureyri er af árgerð 1995, dælubífreið á Þingeyri er af árgerð 1980, tankbífreið á Ísafirði er
af árgerð 1999 og körfubífreið er af árgerð 1981.“

Þarfnast úrbóta

Tólf atriði eru nefnd i skýrslunni sem þarfnast úrbóta. þar má nefna þjálfun mannskaps, ástand hlífðarbúnaðar, skortur á viðeigandi undirfötum undir eldgöllum, vantar að slökkviliðsstjóri fái upplýsingar um geymslu á eitraðri og ætandi
vöru, eldnærandi efnum, gasi undir þrýstingi o.þ.h., neyðaráætlun ekki til á blaði og því ekki aðgengileg, slökkviliðsstjóri eða staðgengill er á vakt eða bakvakt eftir samviskusemi en fá ekki greiðslu fyrir slíkt, ekki hafa verið gerðir skriflegir samstarfssamningar við nágrenna slökkvilið Vesturbyggðar og Bolungarvíkur líkt og kveðið er á um í reglugerð, ekki er greitt fyrir stjórnendavaktir og loks að aðstöðu skortir til að geyma og þrífa hlífðarfatnað og þrífa mannskapinn eftir útköll á starfsstöðvum slökkviliðs á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Aðstaðan á starfstöð á
Ísafirði er lítil. Ákjósanlegast er að hafa sturtu aðstöðu á slökkvistöð.

.

DEILA