Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns fæddist í Reykjavík 13. janúar 1881. Hann lauk stúdentsprófi 1902 og útskrifaðist úr Læknaskólanum í Reykjavík eftir embættispróf 1908. Læknir var hann fyrst í Danmörku, en síðan í Nauteyrarhéraði í Norður-Ísafjarðarsýslu, Flatey og að lokum í Keflavíkurhéraði með aðsetur í Grindavík. Hann fékk lausn frá embætti með fullum
launum 1941 og bjó áfram næstu árin í Grindavík, en lést i Reykjavík 28. júlí 1946.

Innkoma Sigvalda Kaldalóns í íslenskt tónlistarlíf á sínum tíma var hógvær í fyrstu, undirleikur á harmóníum eða píanó á söngskemmtunum, þátttaka í sönghópum og kirkjutónlistarstarfi. Allt án þess að nokkrum dytti í hug það stíflubrot sem varð þegar hann 35 ára gamall orðinn héraðslæknir vestur í Ármúla við Djúp, laumaði með aðstoð vinar síns Sigurðar Þórðarsonar á Laugabóli út hefti með sjö sönglögum. Á fáum árum varð hann vinsælasti sönglagahöfundur þjóðarinnar og hefur vinsældunum ekki linnt síðan.

Minningarsjóður Sigvalda Kaldalóns gaf árið 2019 út Söngvasafn Kaldalóns sem fáanlegt er víða.

DEILA