Laxeldi hjá Arctic Sea Farm sem er dótturfélag Arctic Fish á Vestfjörðum hefur gengið vel á þessu ári. Nú stefnir í að framleitt magn verði um 12.000 tonn af laxi á árinu sem er um 60% meira en á síðasta ári.
Arctic Fish er með fisk í sjó í þremur fjörðum. Í í Patreks- og Tálknafirði þar sem að félagið er með 7.800 tonna leyfi og í Dýrafirði þar sem að félagið er með 10.000 tonna leyfi. Arctic Fish hefur notast við sláturhús Arnarlax á Bíldudal en félögin eru í sameiningu að skoða byggingu nýs sláturhús á Vestfjörðum sem myndi anna allri framleiðslu beggja félaganna.
Eldið hefur gengið mjög vel síðastliðna mánuði að sögn Daníels Jakobssonar ráðgjafa í viðskiptaþróun hjá Arctic Fish. Sjávarhiti hefur verið hagstæður og lifun hefur verið með besta móti. Leyfi félagsins verða því fullnýtt í Dýrafirði innan skamms. Til að létta á þeirri stöðu áður en farið er inn í veturinn og vegna þess að sláturhúsið á Bíldudal annar ekki öllu því magni sem þarf að slátra nú á haustmánuðum mun sláturskipið Norwegian Gannet koma til landsins og slátra um 500 tonnum af afurðum frá Hvannadal í Tálknafirði. Ekkert lát verður á vinnslu í sláturhúsinu á Bíldudal sem er á fullum afköstum. Þar er slátrað þessi misserin um 100 tonnum á dag sex daga vikunnar eða um 25.000 tonnum af slægðum laxi á yfirstandandi ári.