Ísafjörður: stefnt að orlofsbyggð í Dagverðardal

Skipulags- og mannvirkjanend Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að auglýst verði eftir áhugasömum aðilum til þess að byggja upp orlofsbyggð í Dagverðardal og standa að aðal- og deiliskipulagsbreytingum við reit I9.

Um er að ræða u.þ.b. 3,5ha svæði sem er að hluta til skipulagt í aðalskipulagi sem íbúðabyggð og er staðsett neðarlega í Dagverðardal í Skutulsfirði.

Tilefnið er erindi frá Fjallabóli ehf, sem er félag í eigu Friðfinns Hjartar Hinrikssonar, þar sem óskað var eftir því að gera samkomulag við Ísafjarðarbæ um afnotarétt á svæði til frístundahúsabyggðar í Skutulsfirði.

Fjallaból ehf áformar að byggja frístundahús sem yrðu 15-20 talsins, sem reist yrðu í tveimur til þremur áföngum. Áformað er að leigja húsin til bæði ferðamanna og stéttafélaga. Stefnt væri að húsin yrðu í viku- og helgarleigu allt árið um kring.

Í erindi Fjallabóls ehf egir:

„Hugmyndin að formi, stærð og útliti bygginganna er að þau falli vel að umhverfi sínu en húsin verði svipuð hvort öðru í útliti. Lagt verður upp með að útbúa aðlaðandi umhverfi og að frístundabyggðin muni virka sem aðdráttarafl fyrir svæðið í heild sinni.“

Skipulags- og mannvirkjanefnd telur í ljósi jafnræðissjónarmiða að ekki sé hægt að fallast á erindið en lýst engu að síður vel á hugmyndina. Nefndin leggur því til við bæjarstjórn að heimila auglýsingu eftir áhugasömum aðilum.

DEILA