Ísafjörður: Almennur fundur um skógrækt í Skutulsfirði í Húsinu – fimmtudaginn 21. okt.

Skógræktarfélag Ísafjarðar var stofnað á Nýjársdag 1945 og verður 77 ára gamalt næsta nýjársdag.   Það var byrjað að planta innan við Stórurðina og inni í Tungudal. Alltaf hefur  verið haldið áfram að planta en með mismiklum krafti eins og gengur.  Nú er svo komið að það er næstum æagt að segja að það sé að vaxa upp samfelldur skógur í hlíðinni frá Stórurð inn í Tungudal og þaðan að Dagverðardal. Meira að segja er lundur utan við Stórurð,  það er ofan við Hlíðarveg og á hinum endanum er líka lundur í Kubbanum.

Þetta svæði er af stærðargráðunni 75 ha. Það er eftir að planta inn á milli og áhugi á að fara lengra upp í Eyrarhlíðina sums staðar eða eins og hægt er með góðu móti. Þetta hvort tveggja er nokkurra ára verkefni miðað við fjölda gróðursettra planta síðustu ár. En  það þarf að gera fleira en að planta. Það þarf að sjá um svæðið og skóginn,  grisja og leggja stíga til að gera svæðið aðgengilegt, það eru verkefni sem fara ekki frá okkur.

Frumkvöðlarnir héldu að þeir væru að rækta nytjaskóg og fyrstu afurðirnar yrðu kannski girðingarstaurar og eldiviður, en að lokum smíðatimbur.  Viðhorfin hafa breyst á löngum tíma nú lítum við og fremst á þetta sem útivistarskóg, stundum líka kallað yndisskógur. Það er mikill kostur hve skógarlundir félagsins eru nálægt bænum, að sumu leyti á milli hverfa og þeir henta því mjög vel fyrir gönguferðir. Það er nú þegar  gengið mikið um þá og líklegt að það aukist.  Einu afurðirnar úr skóginum hafa verið jólatré, bæði seld almenningi í skóginum og stærri tré fyrir bæjarfélögin, en það eru fleiri möguleikar ef menn vilja.  Það er nú þegar hægt að fella  trjástofna sem hægt er að fletta í borð og nota til smíða og þeim mun fjölga.

Það er margt hægt að gera og enn þá fleira það sem gaman væri að gera, en ekki er hægt að gera allt. Þess vegna verður að ræða og ákveða hver framtíðarsýnin á að vera, hvaða markmið á félagið að að setja sér.

  • Á aðalmarkmiðið að vera að hugsa um þetta svæði sem búið er að planta í og bæta það. Vera með dagskrá í skóginum með ýmsum uppákomum.
  • Á markmiðið að vera reyna að fá meira land og planta áfram. Það er hægt að hugsa sér að fara út fyrir bæinn fyrir ofan Hnífsdalaveg, út í Hnífsdal eða inn á Dagverðardal, eða kannski reyna að fá land í öðrum fjörðum.

Svo er það hin hliðin, það þarf að vera fólk í félaginu til að hugsa um skóginn og sjá um hin ýmsu verkefni. Það væri miklu æskilegra að fleiri kæmu að verkefnunum en verið hefur undanfarið. Það er ekki gert ráð fyrir að félagar séu að planta eða grisja dag eftir dag. Meira að  að hugsa um tiltekin verkefni og sjá um þau, og taka til hendinni stöku sinnum, gert ráð fyrir að fengið sé fólk til að vinna.  Það vantar fleira fólk í félagið  og hægt að ganga í það á fundinum.

Fundurinn verður í Veitingahúsinu Húsinu (útihús)  fimmtudaginn 21 október og hefst kl 20.

Frummælendur verða úr stjórn félagsins

  1. Gísli Eiríksson                                 Skógræktarfélag Ísafjarðar  Staða og framtíðarsýn     
  2. Jóhann Birkir Helgason:               Af hverju starfa ég í Skógræktarfélagi                         
  3. Hildur Dagbjört Arnardóttir:       Líflegri skógarreitir með berjum og blómum.       

DEILA