Ísafjörður: 90% telja ferðaþjónustu mikilvæga

Farþegar af skemmtiferðaskipum voru mest áberandi sögðu svarendur í könnuninni. Myndin af frá komu fyrsta skipsins í sumar. Mynd:Ísafjarðarhöfn.

Níu af hverjum tíu svarendum í símakönnun Ferðamálastofu telja að ferðaþjónustuna vera mikilvæga fyrir samfélagið.
Jafnframt kom almenn ánægja íbúa skýrt fram eins og sjá má á mynd 1.

Könnun fór fram í febrúar 2021. Á Ísafirði voru 769 manns í úrtakinu og var fjöldi svara 382 sem er 50% svarhlutfall. Einnig var gerð sams konar könnun á þremur öðrum stöðum Höfn í Hornafirði, í Skútustaðahreppi (Mývatnssveit) og 101 Reykjavík.

Á þessum fjórum stöðum voru gerðar greiningar á viðhorfum heimamanna á árunum 2015 og 2016 sem drógu fram þemu og álitamál tengd ferðamennsku á hverjum stað. Auk þess veita landshlutagögn úr könnun meðal Íslendinga 2019 innsýn í viðhorf heimamanna á Íslandi áður en COVID-19-faraldurinn skall á.

Gerð var sérstök skýrsla fyrir hvern stað.

Á Ísafirði voru þeir sem störfuðu í ferðaþjónustu marktækt ánægðari með ferðaþjónustu í heimabyggðinni en þeir sem störfuðu í öðrum atvinnugreinum. Konur og einstaklingar sem störfuðu í ferðaþjónustu voru marktækt líklegri en aðrir hópar til að telja ferðaþjónustuna vera mikilvæga fyrir samfélagið. Ungt fólk undir þrítugu og einstaklingar sem höfðu búið á Ísafirði í 6-10 ár voru líklegust til að vera ósammála.

Viðmælendur á Ísafirði voru almennt ánægðir með ferðaþjónustu á svæðinu þó svo að sjónarmiðin toguðust á.

Meðal svara voru þessi:

„Viðhorfin togast alveg á hjá manni. Manni finnst gott upp á fjárhaginn og
annað að það sé aukning en svo finnst manni þolmagnið hjá bænum ekki
vera endalaust fyrir endalausum ferðamönnum.“


„Ég held að það sé yfirhöfuð jákvætt að fá ferðafólk hingað.“


„Á meðan mörk íbúanna eru virt þá finnst mér túrismi almennt af hinu
góða og skemmtilegur Ég held það að samfélag sem upplifir
fjölbreytileika sé gott samfélag.“


„Maður er kannski alveg tilbúinn til að taka á sig smá pirring af því að
maður veit að það er í stærra samhenginu fyrir heimabyggðina,
samfélagið, bæinn sinn, aðra íbúið, að það efli samfélagið þá er það allt í
lagi. Mér finnst það frekar litlar fórnir að færa þó það séu margir á ferð
um bæinn í einhvern stuttan tíma á ári.“

Nær allir viðmælendurnir töluðu um að sveitarfélagið og hafnarsjóður hefðu haft umtalsverðar tekjur af skemmtiferðaskipunum. Þetta kemur heim og saman við niðurstöður könnunar starfshóps hjá Ísafjarðarbæ um skemmtiferðaskip frá 2017 þar sem 60% Ísfirðinga voru á því að skipin færðu Ísafjarðarbæ tekjur
(Ísafjarðarbær, 2019).

Ísafjarðarhöfn fær um helming af heildartekjum sínum frá skemmtiferðaskipum og án þeirra þyrfti höfnin niðurgreiðslu úr bæjarsjóði (Ísafjarðarbær. Viðmælendur voru ekki í neinum vafa um að auknar tekjur til sveitarfélagsins væru
af hinu góða. Nokkrir viðmælendur voru þó að einhverju leyti gagnrýnir á tekjurnar og veltu því upp að hve miklu leyti þessar tekjur hefðu verið á kostnað íbúanna og hvort hægt væri að nota hluta þeirra til að bæta innviði innanbæjar og koma til móts við þarfir íbúa.

DEILA