Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. fjárfestir í kerfi frá Marel

Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. (HG) hefur undirritað samning við Marel um kaup á FleXicut kerfi til notkunar í bolfiskvinnslu sinni í Hnífsdal sem er ætlað að auka sjálfvirkni, gæði og afköst.

Gæði og nýting í fyrirrúmi

FleXicut kerfið sem sett verður upp hjá HG samanstendur af FleXitrim snyrtilínu, FleXicut skurðarvél og FleXisort afurðadreifingarkerfi.

FleXitrim forsnyrtilína jafnar flæði forsnyrtra flaka inn í FleXicut kerfið og er með innbyggða gæðaskoðun. FleXicut greinir og sker burt beingarð, þunnildi og sporð með mikilli nákvæmni og sker svo flökin niður í bita samkvæmt forskrift viðskiptavinar. FleXisort er sérhannað til þess að taka við afurðum frá FleXicut og dreifa á mismunandi afurðarlínur með vipputækni sem stuðlar að bættri hráefnismeðhöndlun.

Með þessari fjárfestingu er markmið HG að hámarka nýtingu á hverju flaki og auka verðmæti á sínum hágæða bolfiskafurðum. Með þeim fjölbreyttu skurðamynstrum sem FleXicut vatnskurðavél býður upp á, er hægt að að framleiða afurðir sem hentar framleiðslunni og þörfum viðskiptavina.

,,Við bjóðum HG í Hnífsdal hjartanlega velkomið í Flexicut fjölskylduna.  Það sem einkennir fiskvinnsluna hjá HG er fjölbreytileiki þ.e. verið er að vinna afurðir með og án roðs í ferskar, frosnar og léttsaltaðar.  Öllu þessu erum við að ná að sinna með Flexicut kerfinu þar sem hver afurð á sitt heimili.” Segir Þórarinn Kristjánsson sölustjóri.


Hraðfrystihúsið hf. var stofnað fyrir rúmum áttatíu árum eða þann 19. janúar 1941. Landvinnsla HG er í Hnífsdal á Vestfjörðum og byggist á vinnslu úr fersku hráefni, nú aðallega þorski en fyrir utan Vestfirði má finna ein gjöfulustu þorskmið Íslands. Hjá HG starfa um 160 manns og eru þeirra afurðir að stórum hluta seldar inn á Ameríku en einnig til Evrópu.

,,Við hlökkum til að taka okkar landvinnslu upp á nýtt tæknistig með þeim áskorunum sem því fylgja. Það mun styrkja okkur í samkeppninni á kröfuhörðustu mörkuðum heims, létta á krefjandi vinnu starfsfólks og bæta afkomu fyrirtækisins til lengri tíma litið”. Segir Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri HG.